Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Náttúrusögur/Kálfatindur
Kálfatindur
Efsti tindur á Hornbjargi heitir Kálfatindur og á nafnið að vera þannig komið til: Frændur tveir bjuggu á Horni, næsta bæ við Hornbjörg. Var annar kathólskrar trúar, en annar lútherskrar trúar; þrættust þeir mjög um það hver trúin væri betri; því hver hélt með sinni trú. Kom þeim að lokum saman um að reyna kraft trúarinnar þannig: Þeir áttu báðir alikálfa og fóru með þá upp á efstu gnípu bjargsins, beiddust þar fyrir. Hinn lútherski beiddi guð þríeinan að bjarga kálfi sínum, en hinn beiddi Maríu og alla helga menn að varðveita sinn kálf. Var síðan kálfunum báðum hrundið ofan fyrir bjargið. En þegar að var gáð þá var kálfur lútherska mannsins lifandi að leika sér í fjörunni, en hinn týndist svo ekki sáust eftir nema blóðslettur. Játaði þá hinn kathólski að Lútherstrú væri betri, og snérist til hennar.