Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Náttúrusögur/Kerlingabotnar

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Kerlingabotnar

Einu sinni í fyrndinni voru tvær kellingar, á Hallormsstað. Þær komu út eitt kvöld og var þá tungl nýkomið upp undan hálsbrúninni upp af bænum og var þá tungl í fyllingu. Þær segja þá: „Þetta er fallegur ostur; við skulum fara með koppa okkar og sækja hann.“ Er nú ekki að orðlengja að þetta kemur þeim ásamt og halda þegar af stað, en af því þær voru heldur seinar á sér og leiðin örðug þá hækkaði tunglið á lofti; en þegar þær komu í botna nokkra eða dældir sem eru fyrir neðan hálsbrúnina sáu þær að máninn var kominn svo hátt á loft að ekki var til að hugsa að ná honum. Þær nema nú staðar og fara að tala um hvað illa hefur til tekizt að þær skyldu missa af svo vænum osti (sem þær kölluðu). Kenndi nú hvur annarri um að þær urðu svo seinar; varð af því jögun milli þeirra, svo áflog og síðast drápu þær hvor aðra og fundust þar dauðar. Eru botnarnir við það kenndir og kallaðir Kellingarbotnar. – Endir.