Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Náttúrusögur/Kerlingaháls

Eitt sinn í fyrnd bar svo til að flökkukerling fór úr Breiðuvík í Barðarstrandasýslu yfir Víknafjall inn í Keflavík; með henni var unglingur stálpaður. Kerling var ríðandi. Hún tók sér gistingu í Keflavík. Morguninn eftir býst hún að fara burtu og inn á Rauðasand, en verður síðbúin. En er hún ætlar af stað kemur þar önnur flökkukerling; hún kom frá Látrum. En er hún veit að hin er ferðbúin hættir hún að beiðast gistingar á bænum, en biður hina að lofa sér að fylgjast með inn á Sandinn því hún sé ókunnug veginum þangað. Kerling er fyrir var afsegir það með öllu, því hún ætlaði sér mundi verða ver til gistingar á Sandinum ef hún fylgdist með sér, og fer hún af stað, og er hin sér það eltir hún hana og segist skuli fylgjast með henni yfir hálsinn þótt hún meini sér það. Fara þær svo og eru alltaf að deila. Kerling sem fyrir var reið undan, en hin á eftir, og fara þær svo þangað til þær koma þar er Hyrnur heita; er þar gata tæp og klettur undir. Þá mælir kerling sem undan reið: „Það skal þó ekki verða að þú, forsmánin þín, njótir fylgdar minnar niður á Sandinn,“ og fer hún af baki og steypir sér niður af klettunum í gjá eina. En er hin sér það mælti hún: „Jæja, þér skal þó aldrei verða að því, bölvuð, að ég fylgi þér ekki eftir,“ og fer hún af baki og steypir sér í gjána á eftir henni. Hálsinn milli Rauðasands og Keflavíkur heitir síðan Kerlingaháls. Unglingurinn er með þeim fylgdist komst til byggða og sagði allt er farið hafði um kerlingarnar.