Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Náttúrusögur/Krían
Krían
Hún kemur hér við land á vorin og um krossmessu og fer síðan aftur um krossmessu á haustin eða í miðjum septembermánuði. En þótt hún komi stundum hingað fyrir vorkrossmessu fær hún ekki málið fyrr en hún hefur smakkað silungs- eða laxhreistur, en það er ekki fyrr en á krossmessudag að hún stingur sér eftir hreistrinu og „þá fær krían málið“ og lætur þá drjúgum til sín taka eftir svo langa þögn frá því sumrinu áður þar sem nýtt skeið byrjar í lífi hennar við krossmessu eins og fyrir vinnufólkinu sem hefur vistaskipti þann dag. Eins og krían hefur hér skamma dvöl eins er hún fljót að fleiru. Hún er ekki eggjasjúk lengur en þrjár mínútur og flýgur þegar upp er hún hefur orpið og sjaldan situr hún drukklanga stund í einu. Til þessa hvorutveggja er jafnað og sagt um þann sem er auðhryggður og auðgladdur að „hann sé eins og kría verpi“ og um þann sem aldrei hefur ró í sér að sitja kyrr að „hann sé eins og þegar kría sezt á stein“. Það er sögn að krían hafi svo langa vængi og stélfjaðrir að hún sé fimm álnir allt í kring þegar mælt er inn í hvert vik og hvern krika.
Ef maður ber á sér kríuhjarta verður sá hinn sami hvers manns hugljúfi.