Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Náttúrusögur/Lífsteinar

Oddur biskup Einarsson var einu sinni á vísitatzjuferð sinni nótt í Kalmanstungu, en það var aðfaranótt Jóns messu skírara. Um morguninn fyrir sól fór hestadrengur hans að smala hestum þeirra biskups. Hann fór norður á engjar og norður yfir Norðlingafljót og upp í hálsinn fyrir austan Fljótstungu. Þar varð fyrir hönum hellusteinn. Á hellusteininum vóru nokkrir smásteinar sem voru á sífelldum hlaupum um helluna. Þeir ýmist hoppuðu hvur yfir annan eða hlupu hvur í kringum annan eins og þegar lömb leika sér um stekk. Þeir voru bleikleitir, en þó með ýmsum litum og á ýmsri stærð. Hönum varð starsýnt á þetta furðuverk. Þegar hann hafði horft á þetta stundarkorn tók hann einnhvurn minnsta steininn, fór með hann heim og sýndi biskupi. Biskupi þótti vænt um steininn og sagði það væri „lífsteinn“, og hellan „lífsteinahella“. En þar af má marka hvað biskupi þótti vænt um steininn að hann gaf hönum í staðinn tuttugu hundraða jörð og lét á sér heyra að sér hefði þótt vænt um, hefði hann fært sér helluna með öllu saman; þá hefði hann mátt biðja konung einnar bænar, hvurrar sem hann hefði helzt viljað. Þá vildi drengur fara aftur og sækja helluna, en það sagði biskup verða mundi til einskis; því nú væri hellan með steinunum hvorfin og mundi sjálfsagt flytja sig þar eð hún hefði misst einn steininn. Þar að auki sæist hún ekki nema á Jónsmessumorgun.