Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Náttúrusögur/Líkavatn
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Líkavatn
Líkavatn
Vatn þetta liggur á Múlaöræfum inn af Skriðdal norðan undir svonefndum Brattahálsi. Eitt sinn í fyrndinni voru úr Skriðdal átján menn við Líkavatn á jólaföstu að dorga silung. Hólmi er í vatninu; þar í höfðu þeir skála. Á Þorláksmessudag fóru allir úr skálanum á dorg nema einn kall sem hvergi vildi fara og bannaði hinum það líka, en þeir hlýddu ekki og fóru ei að síður. Mikill þeyr var á kominn, en veikur ís á vatninu. Þegar þeir vóru í bezta máta að dorga brast niður ísinn undir þeim. Drukknuðu þeir þar allir nema kallinn. Síðan hefur mikill reimleikur átt að vera við vatn þetta og eftir það var það nefnt Líkavatn.