Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Náttúrusögur/Laxamóðir

Loksins er þá laxamóðirin eftir. Hún er talin voðalega stór skepna og er allt hið sama með löxum sem flyðrumóðirin með lúðum, en engar fara sögur af meingjörðum hennar.

„Frá því var mér og sagt,“ segir séra Jón Norðmann, „að í Laxá í Hnappadalssýslu hafi fyrrum verið mikil laxveiði og silungsveiði. Hylur einn var í ánni og jarðhús í, og var þar óvenjan öll af silungi og laxi, en náðist aldrei. Var það þá til bragðs tekið að sel var hleypt í hylinn og haft band á honum, en menn voru fyrir neðan með net. Fældi selurinn svo fyrst fram smásilungana, síðan komu fram laxarnir og veiddu menn hvorutveggja. Loksins komu tvær ógnar stórar skepnur fram úr jarðhúsinu; það voru laxamæðurnar. Ösluðu þær fram ána, rifu öll netin og héldu af út í sjó. Þá er sagt að hafi tekið fyrir veiðina í Laxá.“