Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Náttúrusögur/Ljósnál og vatnaselur

Til er fiskur sá eða silungur í veiðivötnum sem ljósnál heitir; á honum er svo bjart hreistur að lýsir af því víðs vegar niðrí vatninu.

Einu sinni voru tveir menn að veiða silung á dorg á Eiríksvatni sem Fitjaá í Skoradal rennur úr; það var í hálfrokknu að annar maðurinn sér bregða fyrir svo mikilli birtu niðrí vökinni að hann sá glöggt hvern stein í botninum á sjö til átta faðma djúpi. Honum varð hverft við og fór sem fljótast að halda heim, enda var þann dag lítið um veiði í vatninu.

Í öðru sinni voru tveir menn til veiða á sama vatni (heldur en Uxavatni við Uxahryggi); þeir fengu lítinn silung um daginn. Annar þeirra tók eftir því að hinn lá makráður við vökina og hélt að hann sæi silung sem tregur væri að taka, því örgrunnt var. Hann kallar því til hans og segir: „Sérðu þarna silung, lagsmaður?“ Hinn segir: „Nei, ég er að berjast hér við kópskratta, að vita hvert hann vill ekki taka.“ En meðan þeir töluðust við hvarf kópurinn sem átti að hafa verið vatnaselur.