Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Náttúrusögur/Loftsjónir
Loftsjónir
Um vorið[1] í heiðríkju hér um bil milli hádegis og miðmunda heyrðist skruðningur í lofti því líkast sem stórskip væri í flughasti dregið um kastmöl. Þetta heyrðist víða á Suðurnesjum, í Keflavík, Grindavík, Garði og Hafnarfirði. En á Miðnesinu sást skýflóki líða hér um bil skafthátt fyrir ofan sjóndeildarhring úr landsuðri til útsuðurs; fyrst dökkur, en er hann kom fyrir sól að sjá, hvítbleikur. Að honum horfnum kom þessi skruðningur upp – sögðu Nesjamenn. Kristinn Jakobeus heyrði þetta og sagði faðir sinn hefði séð aðra eins og hefði það verið kallaður loftandi.
Þegar Oddrún Guðmundsdóttir systir Lofts í Höfðanum var unglingur í Holti í Mýrdalnum að leika sér með systkinum sínum og öðrum börnum á Stekkjarmýri sáu þau hrafnaflokk koma fljúgandi hér um sex að tölu hver fastur við annan, stél við nef og nef við stél. En er þeir voru því nær að þeim komnir viku þeir til hliðar.
Sögur svipaðar þessum ganga manna á meðal og eru alltaf kallaðar loftanda verkan:
Einu sinni var maður á ferð ríðandi. Sá hann hvar margir hrafnar samfastir flugu beint á hann; fór hann af baki og hokraðist undir kvið hestinum. En einmitt í sömu svifum og þeir flugu yfir hestinn datt hann dauður ofan á hann.
- ↑ Á árunum 1823-25, eftir því sem móðir mín segir mér. [Hdr.]