Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Náttúrusögur/Manndauði á Kaldrana

Sá atburður varð fyrir mörgum öldum að komið var á baðstofuglugga í Höfnum á Skaga einn morgun áður en menn risu þar úr rekkju og kveðin þessi staka:

Mál er að gana,
rekkur hárvana;
liggur lífs andvana
lýðurinn á Kaldrana.[1]

Menn brugðu skjótt við í Höfnum og fóru út eftir. Fannst þá barnið lifandi í vöggunni, en huldukona sást í svip fara frá bænum og út í hól þann er Barnhóll er nefndur; hann er fyrir utan túnið á Kaldrana. Allir heimamenn aðrir lágu dauðir hver í sínu rúmi. Var það ætlun manna að fólk þetta myndi um daginn áður hafa veitt silung í vatni því er Múlavatn heitir og skilur lönd Kaldrana og Víkna, því sú er trú manna að í þessu vatni sé sá silungur er öfuguggi er nefndur, mjög banvænn, en engi veiði önnur.

  1. Næsti bær fyrir utan Hafnir. – P. J. [Hdr.]