Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Náttúrusögur/Nokkur illhveli

Nauthvelið á að vera stærst allra illhvela að undanteknum lyngbak; það heitir og „fjósi“. Nauthveli er það kallað af því að það öskri sem naut bæði úti á rúmsjó og eins þegar það fer með landi fram og heyrir kýr baula baular það á móti; en við org þess verður beljunum svo að þær ganga á hljóðið og hlaupa í sjóinn og hafast aldrei aftur.[1]

Lyngbakur er alkunnur hvalur úr fornsögum og ekki er trútt um að ekki fari enn sögur af honum í munnmælum; flestallar eru þær sniðnar eftir hinum eldri. Hann á að vera stærstur allra hvala í sjó og því sýnist hann vera eyja er hann er ofansjávar og hefur mönnum sýnzt sem þar á sé vaxið lyng og því er hann kallaður lyngbakur.

Sverðfiskurinn er og vondur fiskur; hann liggur á því lúalagi að leggjast í kjalfar skipa á sjó og elta þau og grandar þeim ef hann nær til þeirra. Nafn sitt dregur hann af því að upp úr bakinu á honum er ýkjahátt bægsli og þunnt sem líkist sverði til að sjá. Með því ber hann sjóinn til beggja hliða þegar illt er í honum.

Rauðkembingur heitir illhveli eitt; er það sagt að hann hafi rauð hár eftir hryggnum og þaðan sé dregið nafn hans; engar sögur þekki ég um hann.

Þá er enn náhvalurinn. Bæði Konungsskuggsjá og Eggert Ólafsson segja að hann sé svo ómannskæður að hann forðist menn. Að vísu hef ég ekki heyrt þess getið að hann grandi skipum á sjó, en hitt telja menn víst að hann leggist á nái þar sem menn hafa farizt í sjó og því heiti hann náhvalur eða náhveli. Úr þeim fiski er hin nafntogaða náhvalstönn.

Þetta eru þau illhveli sem ég hef orðið var að sjómenn eru helzt hræddir við og kemur mér þá jafnframt til hugar að sú hjátrú standi í sambandi við hættu þá sem sjómönnum er búin af illhvelum að ætíð skyldi kirkja standa opin meðan á sjó er verið og allra helzt ef presturinn sjálfur var á sjó; þó má vel vera að það hafi átt að vera vörn við því að hvessti svo presturinn kæmist að landi eins og önnur hégilja sýnist benda enn ljósara á, sú nefnilega að ekki mætti viðra bækur meðan á sjó var verið því þá átti hann að bálrjúka eins og vant er ef bækur eru látnar út eða það kemur steypiregn.

  1. Sbr. Nykur.