Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Náttúrusögur/Ormurinn í Skorradalsvatni
Ormurinn í Skorradalsvatni
Sagt er að stúlka hafi verið annaðhvort í Hvammi eða Dagverðarnesi í Skoradal. Hún vildi reyna hvort það væri satt að brekkusniglar (lyngormar) yxi sem látnir væri á gull og gullið með þeim. Hún tók því snigil og lagði á gull sem hún átti í traföskjunum sínum. En þegar hún vitjaði um öskjurnar næst á eftir voru þær nærri sprungnar utan af orminum og gullinu. Stúlkan varð lafhrædd við þetta, hljóp í dauðans ofboði með öskjurnar og fleygði þeim með öllu saman í Skoradalsvatn, og þessi ormur sem vaxið hafði á gullinu í traföskjum stúlkunnar er ormurinn mikli sem stundum hefir sézt í Skoradalsvatni. Hann er svo stór og hefir teygt kryppuna svo langt upp úr vatninu að norðurbyggjar Skoradals hafa séð Dragafell sunnan megin dalsins undir hana, en þó hefir hann haft haus og sporð niðri í vatninu. Þetta hefir aðeins tvisvar borið við og var það í fyrra sinni fyrir svartadauða, en í seinna sinni fyrir stórubólu.
Ekki vita menn hvort það hefir verið ormurinn eða einhver ókind önnur sem annars kvað vera nóg af í vatni þessu sem sást þar á jólaföstunni 1858. Það voru einlægir svartir dílar og hnúskar sem sáust upp úr vatninu, en vatnaði alstaðar yfir á milli þeirra. Þessir dílar náðu yfir heila bæjarleið eða meir, en af því vatnið var farið að leggja við löndin varð ekki komizt út á bátum að skoða þetta betur.