Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Náttúrusögur/Reynirinn

Af viðartegundum hafa einna mestar sögur farið af reyniviðnum enda hefur verið allmikil trú á honum bæði að fornu og nýju og jafnvel allt fram á vora daga. Hann hefur haft einhvers konar helgi á sér og merkilegt er það að hann skyldi verða Ásaþór til lífs er hann óð yfir ána Vimur til Geirröðargarða og er því reynir síðan kallaður sjálfsagt í heiðurs skyni „björg Þórs“ sem Edda segir. Þó er það enn helgara og háleitara sem stendur um hann í Sturlungu þar sem Geirmundur heljarskinn sá ávallt ljósið yfir reynilundi sem vaxinn var í hvammi einum er Skarðskirkja á Skarðsströnd var síðan byggð í. Af því hann var heiðinn maður var honum ljós þetta ekki að skapi, en svo voldugur og ríkur höfðingi sem Geirmundur var dirfðist hann allt um það ekki að uppræta reynirunninn, en óskaði sér aðeins að hann væri horfinn burt úr landeign sinni og fékk ekki við gjört að heldur og hýddi smalamann sinn harðlega fyrir það að hann lamdi fé Geirmundar með reyniviðarhríslu.[1] Seinna á öldum hefur hann þótt einhver óbrigðulasti sakleysisvottur þegar hann hefur sprottið á leiðum þeirra manna sem sökum hafa verið bornir og af teknir án þess að hafa getað sannað sýknu sína í lifanda lífi og eru um það þessar sögur.

  1. Sturlunga sögu, I, 8. bls. Sú trú helzt og enn austur í Skaftafellssýslu að ekki megi lemja fénað með reynivið.