Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Náttúrusögur/Reynisdrangar

Reynisfjall gengur alveg fram að sjó sem kunnugt er. Sunnan við syðri enda þess eru drangar þrír allhávaxnir, auk annara skerja sem öll eru lág og sem oftast í kafi. Hinn mesti drangurinn er lengst frá landi og er almennt kallaður Langhamar; hann er þunnur mjög, en langur nokkuð og mjög einkennilegur, því upp úr honum standa aðrir þrír drangar allhávaxnir, og hafa gamlir menn sagt mér að í þeirra minni hafi verið samfastir tveir vestari drangarnir á skeri þessu að ofanverðu og hefur drangurinn þá hlotið að líkjast talsvert þrímöstruðu skipi undir seglum.

Annar drangurinn er kallaður ýmist Háidrangur eða Skessudrangur, og hefir hann þó ekki skessulegan vöxt, því hann er hár mjög, en allmjór – að því undanteknu að hann er með stóru gati að neðanverðu, ekki alls kostar ólíkt því sem mynd þessi væri að stíga öðrum fæti sínum út á eitt lágt sker, og líka hefur mér verið sagt af gömlum mönnum að fyrir víst öðrumegin á drang þessum hafi verið svo að sjá sem út stæði krepptur handleggur og hafi þar verið gat í gegn sem olboginn átti að vera. Enn liggur við að toppurinn líkist höfði og hálsi.

Þriðji drangurinn heitir Landdrangur, enda er hann svo nærri landi að það ber oft við að ganga má þurrum fótum út í hann, en ekki hefur hann neina merkilega mynd.

Um dranga þessa hefur verið til munnmælasaga, en ekki hefi ég getað fengið hana fyllri en svo sem nú skal segja: Skip mikið skyldi hafa lagt inn í Þórshöfn sem var austan undir Reynisfjalli þar sem nú heitir Þórshafnarfjara. Það var bilað af ofveðri og lagði því þar inn til aðgjörðar. Meðan á aðgjörðinni stóð kom til skipverja tröllkona mikil og beiddi þá fars. Þetta átti að vísu að vera kaupskip, en þó átti þar að vera á konungssonur einn að sækja konuefni sitt, en þó er ekki greint hvaðan skipið kom eða hvurt það ætlaði. Samt skyldi konungsson þessi að hafa haft konuefnið þar með sér og hefur þá þetta skip átt að vera á heimleið. Þess er nú að geta að konungsson átti að hafa synjað tröllkonunni fars, en hún hafi sagt að þeim væri það enginn bagi ef að hún gæti vaðið út til þeirra þá er þeir færu á stað. Þá er skipverjar höfðu nú bætt það er þeim þókti þurfa lögðu þeir út úr höfninni og héldu suður með fjallinu. En er þeir voru komnir móts við fjallsendann sáu þeir hvar skessan fór og lagði þá út á sjóinn, kallaði til skipverja og bað þá bíða, en þeir neituðu. Og er hún sá sitt óvænna að geta náð til þeirra kvaðst hún þá leggja það á þá að þeir og skip þeirra skyldi verða að steini, en þá hafi konungsson svarað að hún skyldi líka verða að steini og átti þá hvurtveggja að verða að áhrínsorðum.

Önnur sögn lætur jötun mikinn hafa fylgt skessunni og á hann eftir því að vera Landdrangurinn. Þetta á nú að vera tilverusaga dranganna framan undir Reynisfjalli.