Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Náttúrusögur/Sagan af Jarpi

Þegar sýslumaður Magnús Ketilsson bjó í Búðardal var það vani hans að láta stóðhross sín ganga inn í Saurbæ sumar og vetur. Einu sinni tók hann þaðan úr stóðinu jarpan hest sex vetra gamlan og hafði aldrei verið tekið mannshönd á honum fyrri; fóru þá vinnumenn að temja hann sem sýslumaður hafði sagt þeim. Var hann þeim beldinn, en þeir lítt vandaðir menn.

Einn dag fluttu [þeir] kaupstaðarvöru frá morgni til nóns. Vissi sýslumaður ekkert um meðferð á hestum sínum; var þá sprett af hestunum og Jarpi með þeim og reknir út fyrir tún og fólkið fór að borða. En rétt á eftir kom stúlka út og sá þá Jarp standa við bæjardyrnar; hún fór inn og segir það piltunum, en þeir skipuðu henni að reka hann út fyrir tún og það gjörði hún. Síðan fór hún inn og út aftur bráðum og sér hún Jarp á sömu hellunni og áður. Segir hún piltunum og rekur þá einn þeirra [hann] út fyrir tún, en strax þegar maðurinn var kominn inn fyrir bæjardyrnar þá var Jarpur kominn á sömu helluna og hann var áður kominn. En sýslumaður var í baðstofuhúsi og hafði hann heyrt allt sem við hafði borið. Gekk hann þá út og sagði að Jarpur mundi vilja finna sig. Kallar hann á vinnumenn sína, ganga þeir allir út. Rennir þá Jarpur augunum upp á sýslumann og so upp á himininn, gengur síðan á stað og á slétta flöt, leggst þar og réttir frá sér höfuð og fætur og á skammri stundu var hann steindauður. Spyr þá Magnús vinnumenn sína hvurra meininga þeir haldi að Jarpur hafi haft, en þeir þögðu. Sagðist hann þá skyldi segja þeim það sjálfur, hann hafi verið að klaga þá fyrir sér, en sig fyrir guði í himninum, fyrir meðferðina sem á honum hefur verið höfð. Talaði hann so fyrir þeim að þeir gengu grátandi í burt sumir.