Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Náttúrusögur/Selkynjaða konan
Selkynjaða konan
Eitt af fornsögum alþýðunnar var það að Faraó sem drukknaði í Hafinu rauða með liði sínu hafi orðið af selum sem síðan hafi aukizt og margfaldazt, en uppfræðing um þetta hafi svoleiðis til fallið að eina jólanótt hafi maður verið við sjó og komið að sjóhellir hvar hann hafi inni séð mikið af nöktu fólki að dansleik, en fyrir utan hellirinn sá hann mikið af selhömum. Hann tók einn haminn og fór með hann heim og læsti í kistli sínum. Daginn eftir fór hann að hellirnum að vita hvað hann sæi; þá var allt fólkið horfið og hamirnir nema einn kvenmaður nakinn var í hellirnum. Maðurinn tekur hana og hefur heim með sér, fær henni vanaleg föt og verður hún þá svo dæileg að hann giftir sig henni og á með henni þrjú börn, en geymir haminn í kistli sínum. Hún kvað segja honum að allt selakyn hafi þessa háttsemi níundu hvörja jólanótt.
Eftir þrjú ár fer maður þessi á sjó og skilur eftir heima kistilslykil sinn, en um daginn sér hann að selkæpa er að sveima kringum skipið og hefur jafnan augun á honum. Þegar hann kemur heim er unnusta hans horfin. Kemur honum þá í hug að það muni hafa verið kæpan er hann sá á sjónum um daginn. Um nóttina segir sagan að hann hafi dreymt hún koma til sín og segja að hann skyldi daglega fara á fjöruna og hirða það sem hann fyndi til uppeldis börnum sínum.