Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Náttúrusögur/Skatan í Þverá

Eins og alkunnugt er liggja jökulvötn þau sem falla milli Fljótshlíðar og Eyjafjalla í ýmsum stöðum þegar þau koma fram á láglendið. Þegar þau falla hið eystra er kallað þau liggi í Markarfljóti og hafa þau gjört þar miklar skemmdir, einkanlega í Stóradalssókn. Þegar þau falla að vestanverðu er kallað þau liggi í Þverá og hafa þau þá gjört mikinn usla í allri Fljótshlíð og enda í Hvolhrepp og Vestur-Landeyjum. Þar lágu þau hér um bil í 60 ár til skamms tíma (fram yfir 1850), en að þau hafi runnið þar fyrr sést bæði af gömlum bríkum og uppgrónu sléttlendi framan undir þeim. Hin glöggvustu merki hinna fornu landbrota sjást í innanverðri Fljótshlíð og til þeirra bendir saga þessi:

Einu sinni bjó kona sú í Eyvindarmúla er Hólmfríður hét og var kölluð hin ríka. Átti hún bæði alla Eyvindarmúlaeignina og alla Stóradalseignina. Hún var ekkja þegar þessi saga gjörðist. Jón Hallsson hét maður sá sem réð fyrir búi hennar. Var hann bæði skáld og fjölkunnugur og segja sumir að hann væri hinn sami og Jón biskup Arason nefnir í vísu sinni um skáld á Íslandi.

Í þennan tíma tóku jökulvötnin að falla út í Þverá rétt fyrir innan byggð á móts við Streitur eins og hún hefur gjört síðan og fylgdu mikil landbrot þessu vatnahlaupi. Jón kom þá að máli við Hólmfríði og spurði hana ef hún ætti um að velja hvort hún vildi heldur að Dalseignin eða Múlaeignin skemmdist af þessum vatnaágangi. Hún kvað flestum verða fyrst fyrir að byrgja þann brunninn sem næstur væri. Jón fór þá út í hjall og tók þar gamla skötu harða, fór með hana inn á Streitur, magnaði hana og fleygði henni eða hleypti síðan í ána og lagðist þá jökulvatnið allt að austanverðu í Markarfljót og gjörði mikinn skaða undir Eyjafjöllum bæði í Dalshverfinu og víðar; ætla sumir að Hvammsleirur hafi myndazt um það leyti. Vel og lengi varði skatan Þverá, en á þessari öld hefur hún annaðhvort verið orðin svo ellimóð að hún hefur ekki lengur dugað eða hún hefur verið dauð með öllu.

Annars er sagt að menn hafi á seinni tímum tekið gráan fresskött og gráan ullarlagð, haft þar ýmsa formála fyrir, en engan þeirra hef ég heyrt, og fleygt síðan hvortveggju í ána, en víst er um það að kettirnir hafa ekki leyst verk sitt eins vel af hendi og skatan forðum.

Eftir þetta er sagt að Jón Hallsson hafi flutzt vestur á land, og var það mörgum árum seinna að maður nokkur austan undan Eyjafjöllum kom á bæ hans. Tók Jón manninn tali úti í kirkju og spyr hann tíðinda að austan; meðal annars spurði hann hvar jökulvötnin þar eystra rynnu núna. „Þar sem þú og fjandinn skildu við þau seinast,“ svaraði maðurinn. Hann sá að Jón þykktist af þessu og gekk út þegar. Manninn fer nú margt að gruna og tekur það ráð að hann fer að hurðarbaki, stígur upp á hurðarokana og heldur sér þar. Að vörmu spori sér hann að vofa kemur inn í kirkjuna og fer innar eftir henni og litast um, snýr síðan aftur utar eftir, en kemur ekki auga á manninn. Í þessu bili kemur Jón inn í dyrnar og litast um. Hyggur hann að sendingin hafi riðið manninum að fullu, en varð nú sjálfur fyrst fyrir henni án þess að vera við því búinn, og drap sendingin Jón þegar í stað þar í kirkjudyrunum.

Á seinni tímum þykjast menn hafa orðið varir við skrímsli í Þverá í skötulíki, en ekki hafa menn sett það í samband við skötu Jóns Hallssonar. Átti kvikindi þetta að halda sig í Þverá innanverðri og aldrei framar en á móts við Breiðabólstað.

Svo er haft eftir séra Runólfi[1] sem fyrst þjónaði Stórólfshvols- og Skúmsstaðaþingum og síðan Keldnaþingum að hann hafi einu sinni riðið Þverá móts við Breiðabólstað og hafi þá ókind þessi orðið fyrir hesti hans svo hann datt undir presti; gaf þá ókindin sig upp og veltist frá og sá prestur glöggt á skötubörðin. Prestur komst aftur á hest sinn og til lands.

  1. Runólfur Jónsson (1759-1809) fékk Stórólfshvolsþing 1785, en Keldnaþing 1801 og hélt til æviloka.