Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Náttúrusögur/Skoffín, skuggabaldur og urðarköttur
Skoffín, skuggabaldur og urðarköttur
Skoffín er skepna sú eða óvættur er verður úr hanaeggi; því þegar hanar verða gamlir eiga þeir eitt egg og eru þau egg miklu minni en önnur hænuegg. Ef hanaeggi er ungað út verður úr því sú meinvættur að allt liggur það þegar dautt er hún lítur; svo er augnaráð hennar banvænt. Einhverju sinni bar svo til við kirkju á einum stað að jafnóðum og fólkið gekk út að loknu embætti valt hver um þveran annan dauður niður. Hinir ráðsettari í söfnuðinum og aðgætnari tóku bráðum eftir þessu og þó einkum djákninn. Stöðvar hann þá fólkið sem út er að þyrpast og tekur það til bragðs að hann bindur spegil á stöng langa, stendur sjálfur inni í kirkjudyrunum og réttir stöngina upp með kirkjuþilinu framanverðu svo hátt að hann ætlast á að stangarendinn með speglinum taki upp fyrir kirkjuburstina. Síðan bað hann alla út ganga og varð þá engum meint við. Hafði hann orðið nærgætur um það hvað ylli manndauðanum því skoffín hafði staðið uppi á kirkjuburstinni og séð alla sem út gengu, og því dóu þeir þar sem hver var kominn. En þegar djákni rétti upp spegilinn sá það sína eigin mynd, en það er þeirra kvikinda bráður bani ef svo ber að. Sama náttúra fylgir og skrímsli því er skuggabaldur heitir; það er kynblendingur af ketti og tófu, en aðrir segja af ketti og hundi. Þá er og hið þriðja kvikindi er þessi náttúra fylgir, og er það urðarköttur sem lagzt hefur á ná og verið samfleytta þrjá vetur neðanjarðar í kirkjugarði. Engin skepna hvorki menn né málleysingjar mega standast augnaráð neinna þessara meinvætta og liggja þegar dauðir er þeir verða fyrir tilliti þeirra. Illvættum þessum verður og ekkert að aldurtila nema ef þær sjá eigin mynd sína eða ef skotið er á þær með silfurhnöppum og þríkrossað fyrir byssukjaftinn áður en af er hleypt.