Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Náttúrusögur/Skrímsli sén 1749-50

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Skrímsli sén 1749-50

Þessi skrímsli hafa oft sézt, en einkum 1749 og 1750. Frá því um vorið 1749 og til þess haustið 1750 sáust þau öðru hvoru af valinkunnum mönnum. Pétur lögsagnari í norðurparti Múlasýslu og tveir menn aðrir sáu eitt frá Ketilsstöðum á Völlum, en enga mynd gátu þeir deilt á því. Aðrir tveir menn fóru saman samdægurs og hitt bar fyrir þá Pétur upp eftir Fellunum. Þeir sáu fyrir utan Arnheiðarstaði skepnu nokkra fara upp eftir fljótinu á vöxt við stóran sexæring og fór hún hart mjög; þetta sama sá og allt fólkið í Hrafnsgerði, sá bær er skammt þaðan. Þriðji maðurinn fór einn saman sömu leið og hinir tveir; hann sagðist og hafa séð eitt skrímslið skammt undan landi sem sel, en leit út á belginn sem skata þegar hún er dregin úr sjó; þessi skepna stakk sér þegar aftur með miklum boðaföllum. Þessir þrír menn komu að Arnheiðarstöðum um kvöldið og sögðu frá því sem fyrir þá hafði borið. En á meðan þeir voru að segja frá þessu sáu þeir allir í einu skrímsli þar niður undan bænum; var það fyrir víst 30 til 40 faðma á lengd með háum hnúk upp úr bakinu og einn þeirra þóttist sjá anga fram úr því og aftur sem lágu langt út í fljótið. Allt voru þetta sannsöglir menn og vandaðir. Auk þessa hafði allt Arnheiðarstaðafólkið séð skrímslið bæði fjarri og nærri landi þar undan bænum, en hefur þó aldrei getað séð svo skapnað þess að það hafi getað lýst honum greinilega. Eftir þetta sá allt fólkið í Hrafnsgerði þrjá hnúka upp úr fljótinu allt að því heilan dag og vatnaði í milli þeirra allra mörg hundruð faðma, eftir því sem bóndinn hafði frá skýrt.

Einu sinni var Hans Wium nótt á Arnheiðarstöðum, en um morguninn voru prestarnir séra Hjörleifur, séra Magnús og séra Grímur þar og staddir, og sáu þeir allir í stillilogni og bezta blíðviðri blástur rétt yfir undan í fljótinu sem hvalblástur, en þó var hann öllu meiri. Þá voru menn farnir út eftir fljótinu í flutning og sáu þeir skammt þaðan sem blásturinn var viðlíkt og varða væri upp úr fljótinu. Þegar þeir höfðu horft á það nokkra stund tók það til rásar upp að landi.

Aldrei hafa þó orðið meiri brögð að þessum sjónum en vorið og sumarið 1750 því þá sáust skrímslin í ánum upp frá fljótinu, þrjú undan Hrafnkelsstöðum, tvö í hestlíki með brúska upp úr hnakkanum og hnúð á hryggnum og voru þau svört tilsýndar. Eitt þeirra rétti upp tvær trjónur og vatnaði yfir á milli. Þar að auki lagðist eitt á land fyrir utan Víðivelli og sáu það þrír menn. Annað lagðist á land hjá Hreiðarsstöðum og sagði bóndinn þar svo frá því að það hefði verið sem stærsta hús.