Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Náttúrusögur/Skrímsli sén 1819

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862)
Skrímsli sén 1819

Í vor um það leyti Lagarfljót var að losna sást skrímsli í því. Fyrst sást það við ísbrúnina því autt var við landið framundan Hafursá. Það var hér um sem þeir eð sáu til gátu tvær til þrjár teigshæðir frá landi, grátt að sjá og í formi sem hestur stæði á höfði og lendin stæði uppi, en ei sáu þeir fætur eður anga neina á þessu. Þetta sást fyrst á laugardag; svo fluttist það með ofurhægri ferð mót straumi og hægum vindi upp á móts við Hallormsstað, og þar loks ei fyrr en á sunnudag hvarf það. En á meðan á þessu stóð var ísinn að reka út eftir.

Sjónarvottar að þessu voru sr. Gunnlaugur á Hallormsstað og Hinrik á Hafursá og margir fleiri. Einn þeirra vildi skjóta í það, en hinir vildu ei lofa honum það. Ei var þar bátur til. Mundu þeir varla heldur vogað hafa út að því, þar þessir eru engar kempur nema það hefði verið Hemingur, sem skjóta vildi.