Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Náttúrusögur/Vatnsskarðsskrímslið

Snemma í næstl. janúarmánuði (1818-19?) sást á bænum Vatnsskarði skepna nokkur sem margar getur eru um. Mér er fortalið soleiðis: Karlmaður og kvenmaður sóktu naut fram að Valadal, næsta bæ fyrir framan, og leiddu út að Vatnsskarði. Eftir sér sáu þau koma einhvörja svarta kind sem þeim sýndist stundum stærri, stundum minni, og nálægðist þau meir og meir, alltsvo fór nokkuð fljótara. Þessi kind rak upp úr sér ámátleg væl öðru hvörju. Þau urðu fulltrúa að Satan sjálfur elti þau og tóku til allra bragða, fyrst með fyrirbænum og síðan form[ælingum], að reka þenna óvin frá sér. En það hjálpaði ekki; samt komust þau með bola heim að bænum fyrri en ofsóknarinn. Hann kom stundu síðar og gólaði aumlega hjá baðstofunni. Fólkið varð mjög hrætt, en til allrar lukku var á bænum frískur, skýr og hjátrúarlítill karlmaður. Hann vogaði sér út ásamt aðkomumanni og þeir sáu kolsvarta skepnu sem þeim heldur sýndist loðin en snögg; hún hörfaði undan þeim til baka ofan bæjarbrekkuna og sýndist þá velta á endum, og förin í snjónum báru engin meiri kenniteikn en niður skyldi hafa verið stungið á skaftið húnlausum pál. Hér um þriggja faðma bil skal hafa verið millum þeirra og dýrs þessa; þó gátu þeir enga líking séð fyrir höfði, fótum, hala eður þess kyns. Þeir siguðu hundum sem mikið geltu að því, en þorðu ekki nærri að koma og fældust það ógurlega.

Þegar kind þessi var komin ofan á mýrina og líklega meira óttafrí teygði hún sig upp og vældi; hafði þá verið til að sjá sem stór hundur. Þetta var á liðnum degi, alltsvo sjónin ekki glögg, og hélt hún síðan aftur í sömu átt. Það sáu mennirnir að hún gat komizt nokkuð áfram án þess að steypa dausum, en hvernin aðgættu þeir ekki.

Ég meina flest af þessu, ef ekki allt, sé satt frá sagt; annars færi ég ekki á flot með það.