Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðbætir/Álfakaupmaðurinn

Einu sinni fór bóndi úr Sléttuhlíð í kaupstað í Hofsós með ull sína eins og oftar. En þegar hann ætlaði að fara að leggja hana inn vildi kaupmaður hana ekki; sagði hún væri illa þvegin o. s. frv. Bóndaauminginn hafði ekki annað innlegg en þetta ullarhár og varð því mjög hnugginn því að hann fékk ekkert út heldur og mátti fara allslaus heim aftur að öðru leyti en því að hann hafði sömu ullarpokana á hestinum sem hann fór með í kaupstaðinn.

Þegar hann var að fara kom til hans maður sem heilsaði honum kurteislega og spurði hann hví hann væri svo hnugginn. Bóndi sagði sem var: að kaupmaðurinn hefði gert sig afturreka með ullina. Ókunni maðurinn sagðist nú reyndar hafa vitað það því að hann hefði verið í búðinni og heyrt hvað þeim kaupmanni hefði farið á milli. Sagðist hann nú skyldi kaupa af honum ullina ef hann vildi verzla við sig einan þaðan í frá; sagði hann að kaupmanni færist ekki að finna að vörum bænda, hann hefði ekki svo góðar vörur sjálfur. Bóndi lofaði honum því. Fór hann síðan með manninum inn fyrir Hofsóskaupstaðinn að svokölluðum Staðarbjörgum; þar sagði maðurinn honum að taka ofan ullarpokana. Bóndinn gjörði það. Síðan sagði maðurinn honum að hann væri álfakaupmaður; sagðist hann hafa bústað sinn og verzlun þar í Staðarbjörgunum. Síðan fór hann með bóndann inn í búð sína – hafði bóndanum áður sýnzt það vera ber kletturinn – og sá hann þar margt fólk og fallegar vörur. Síðan lét kaupmaðurinn hann taka út á ull sína og fylgdi honum aftur til hestanna. Sendi hann konu bónda klút í kaupbæti; hafði aldrei sézt þar í Sléttuhlíðinni jafnfagur klútur. Sagði hann honum að hann skyldi koma með ull sína á hverju sumri í sama mund þar á klettana og þá skyldi hann fá út á hana; en vanda yrði hann þvott á ullinni og engum mætti hann segja hvar hann seldi ull sína.

Hélt nú bóndi heim glaðari í huga en á horfðist í fyrstu. Þegar hann kom heim undruðust allir hve góðar og fagrar vörur hann hafði og spurðu hann hvar hann hefði fengið þær, en hann lét fátt yfir og vildi ekki mikið um það tala. Gekk þannig upp frá því á meðan bóndinn lifði að hann verzlaði á hverju sumri við álfakaupmanninn og líkaði vel. Aldrei sagði hann frá því fyr en á dánardægri sínu.

Það hafði kaupmaður sagt honum að skip kæmi ætíð til sín viku fyrir sumar.