Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðbætir/Þorgils á Uppsölum

Maður er nefndur Þorgils Gunnlögsson; hann var húskarl Erlendar bónda á Munkaþverá. Það var einn sumardag fyrsta að hann fór kynnisleit á bæ þann er heitir á Uppsölum og dvaldist þar lengi dags; en er aftna tók réðist hann til heimferðar. Veður var blítt, en jörð að neðan heldur svellrunnin og snær víða í giljum. Lækur einn rennur fyrir sunnan bæinn á Uppsölum er Skáldalækur heitir. En það bar til um kenningarnafn þetta að skáld þrjú fóru um farinn veg og hét einn þeirra Auðun, annar Geirmundur og enn þriðji Þorbjörn. Og sem þeir komu að sögðum læk þá rann þar á ein mikil og flóði yfir drang þann er enn stendur á enum syðra lækjarbarmi og kallaður er Einbúi. Hér námu skáldin staðar því áin hljóp fram og var hverju kvikendi ófær yfirferðar. Þá mælti Auðun: „Nú kemur að því sem mælt er, félagar, að fljótt beri að farartálmann og fer slíkt að vonum er vér höfum farið næsta tómliga í allan dag og verið heldur óþarfir griðkonum búenda.“ Þá mælti Geirmundur: „Ekki tjáir að sakast að svo komnu og finnum oss heldur aðra skemmtan.“ Þá kvað Þorbjörn vísu:

Ullar mágur er ollir
engd hraunhvala mengi,
heft þá hraða sviptir
hróður beranda þjóðum
er vaxandi Vimrar
veiktir þrótt við ótta
brúða jötuns þér bráðan
bana vildu gildra.

Þá mælti Geirmundur: „Nú gjörir þú bert hverja skemmtan þú vilt upp taka; skal nú og ei dvelja það fram að láta er ég hefi til.“ Síðan kvað hann:

Felli straumur úr fjalli
flugherðandi sverða;
raun er að rennsli hlánar.
rekka förum hnekkir;
eyðing láttu óðum
ofstríðan log bíða
Freyr og Fenris reyrur
fast halda um aldir.

Auðun svaraði: „Ykkur mun þykja mér farast ódrengilega ef ég heykist að standa undir með ykkur um þá gleði er þið viljið frammi hafa;“ og kvað vísu:

Sem duft storðar driftum
dal sveimandi vala
flýr við hraða fyri
fornjóts burar gjósti
svo flýi fens hlýjum
fjalls hrauka blæ aukinn
þróttur þeygi léttur
Þundar boðum undan.

En svo brá undarliga við um kveðskap þeirra að flóanda þann enn mikla gjörði á samri stund svo næsta lítinn sem smálækur væri og hélzt það æ síðan. Var þá snúið heiti árinnar og kallaður Skáldalækur.

En það er að segja af Þorgilsi skarða er fyrri var frá horfið, að þá er hann kom að Skáldalæk sótti hann ómegi svo fast að ei mátti hann halda á göngu og lagðist hann til að sofa. Ei hefir hann legið alllanga hríð áður honum þykir megnum reykjareim bregða fyrir nasir sér og því næst verður hann var við að reykjargjósanda miklum slær í loft upp hið efra í fjallinu. Sprettur hann á fætur og litast um hvort efni muni í vera. Hann getur litið glugg einn í lækjarhvammi allskammt þaðan viðlíkan sem ljóra á húsi, og lagði þaðan reykinn. Varð honum það fyrir að hann sveip möttulskauti sínu um höfuð sér og grúfðist ofan að glugginum. Þar sér hann jarðhús eitt lítið og brennur eldur á arni. Hver hékk yfir eldinum á járnteini, en svo virtist honum ketillinn vella að af því gnötraði hann á ásinum. Tveim megin sátu konur tvær heldur vöxtugligar og stórgerðar mjög í andliti og höfðu spjót að skörungum. Á baki annarar þeirra sá hann bing á að líta sem ís mulinn í frosta. Sú var sýslan þeirra að önnur bakaði hleif og var sá blóði litaður, en hin þvaraði í katlinum og kváðu þær vísu og mælti sína hending hvor þeirra:

Brauðið er vætt í blóði,
benregn markar þegna,
rauður vætlar rúgur í katli,
rigna mun valbyggvi,
ísmölvað lið æsast
öðru mót mun skjótta,
sandur það silfri blandinn
sannar komumanni
og sannar komumanni.

Þá Þorgils skarði hefir séð þessi tíðindi slær yfir hann felmtri miklum og vill hann hafa sig á brott, en í þeirri svipan leit önnur konan við honum og mælti: „Þú sefur að vísu Þorgils, en jafnt er sem þú vakir og mun ég láta þess nokkrar jarteiknar að sýn sú er fyrir þig hefir borið sé ei að öllu ómerkilig.“ Og í því enu sama blés hún glóandi koli á vör Þorgilsar og við það vaknaði hann. Var þá eftir skarð mikið í hinni efri vörinni er honum þókti kolið hafa á komið. Af þessu öllu saman varð honum svo illa við að hann sló undir sig fótum og létti ei fyrri en hann kom á Munkaþverá.