Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðbætir/Eiríkur og mjaltakonurnar
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Eiríkur og mjaltakonurnar
Eiríkur og mjaltakonurnar
Einu sinni reið síra Eiríkur framhjá kvíum hvar tvær stúlkur voru að mjólka; ein þeirra kallar til hinnar: „Viltu sjá hann Galdra-Eirík?“ „Já,“ segir hin. Síra Eiríkur heyrir þetta, lítur við og ríður síðan áfram. Strax sem hann er kominn dálítið frá kvíunum fara stúlkurnar upp úr kvíunum, fletta öllum fötunum upp fyrir höfuð og elta hann; þær elta hann langan veg, en aldrei lítur síra Eiríkur aftur og fjöldi af lestum fara þar fram hjá, því síra Eiríkur og fleiri voru á kaupstaðarferð. Seint og um síðir lítur séra Eiríkur aftur og segir: „Snúið þið nú aftur stúlkur mínar; nú hafið þið séð hann Galdra-Eirík.“