Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðbætir/Huldubátur

Ásmundur[1] segir mér[2] að maður að nafni Rafn Ólafsson hafi sagt sér að hann hafi séð huldufólk. Segir hann að Rafn þessi sé mjög sannorður maður, laus við allt glens og gárungahátt.

Einu sinni var Rafn til róðra út á Látrum á Látraströnd. Einu sinni stóð hann út á hlaði ásamt með fleiri mönnum. Rafni varð litið út á fjörðinn og sá hvar bátur kom siglandi undan Gjögrunum. Rafni þókti báturinn skrýtinn og fór inn og sókti sér kíkir og skoðaði bátinn í honum. Var siglingin allt öðru vísi en menn vanalega hafa hana. Rafn hugsaði nú ekki frekar um þetta að sinni og gekk inn. Að augnabliki liðnu kom hann út aftur og þá var allt horfið. Ekki gat samt báturinn horfið á náttúrlegan hátt því að frá Látrum sést um allan fjörð.

Einu sinni var Rafn á kaupstaðarleið sjóveg með öðrum fleiri á bát. Þegar þeir komu inn undir Oddeyrina verður þeim litið til baka og sjá þeir þá hvar bátur með þremur mönnum kemur róandi á eftir þeim. Þeir fóru að tala um að þetta væri skrýtinn bátur því að þeir sáu hann þarna allt í einu, en ekki rétt áður. En þegar þeir eru að tala um þetta hverfur báturinn og sáu þeir hann ekki síðan.

  1. Líklega Ásmundur Gíslason á Þverá í Dalsmynni.
  2. Guðmundi Davíðssyni.