Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðbætir/Hvítskeggshvammur
Hvítskeggshvammur
Austan til upp af Deildarhálsi, milli hans og Kerlinga, er hvammur inn í Geitahlíð sem kallast Hvítskeggshvammur. Þar upp undan er hnúkur á hlíðinni sem kallast Æsubúðir. Kynleg sögn er til um orsök þessara örnefna, nefnilega sú að í fornöld hafi sjór legið yfir öllu láglendi austan fjalls, það er sannað með gömlum sjávarkampi hjá Þurá í Ölvesi og víðar, og að þá hafi kaupstefna verið á Æsubúðum og því heiti búðir, en ekki er getið um orsök til þess að þær eru kenndar við Æsu. Í hvamminum var þá skipalega og hét skipið Hvítskeggur. Þetta er sannað með því að eftir Herdísarvíkurfjalli, upp á hamrabrúninni þar sem ekki hefir hraun yfir hlaupið liggi götur í klöppunum líkt og á Hellisheiði og að festarhringur hafi sézt í klettunum efst í hvamminum. En síðan hefir brekkan og kletturinn í hvamminum hrapað niður og ætti hringurinn þá að vera í urðinni, enda gæti hún falið í sér stærra stykki.