Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðbætir/Séra Hallgrímur á Görðum

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Séra Hallgrímur á Görðum

Sagt er að Hallgrímur prestur Jónsson á Görðum, faðir Sveinbjarnar sál. prests að Glaumbæ, hafi vitað hvernig fór fyrir sóknarbörnum hans sem hann jarðaði. Einu sinni drukknuðu margir menn í lendingu á Akranesi, ráku allir upp og vóru kistur þeirra settar allar í kirkjuna. Þegar prestur kemur inn lítur hann á kistu Ara, svo hét einn þeirra, [og segir]: „Fyrir þér ber ég virðingu;“ og var hann þó talinn hinn breyskasti af þeim að heimsins dómi. Aðrir segja prestur hafi átt að rita miða og fleygja á kisturnar ofan í gröfina, en lagði merki til þess á hverja hliðina blaðið kom niður. (Þetta er líka ein gamla íþróttin.)