Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðbætir/Völuspá

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Völuspá

Maður tekur sauðarvölu og leggur í lófa sér svo kryppan snúi upp, ber hana svo upp að vanganum og veltir henni með lófanum meðan maður segir:

Upp er kryppa á völu minni,
opin ef þú lýgur,
aftur ef þú segir satt,
spákona ég spyr þig að.

Og nú spyr maður þess er hann vill og lætur svo völuna detta á slétt borð; spurningin verður að vera svo löguð að henni verði svarað annaðhvort með já eða nei. Verði nú upp kryppa völunnar á borðinu segir hún já, en ef hvilftin er upp segir hún nei; liggi hún á hliðinni vill hún ekki spá, aðrir segja að hún segi: ég veit það ekki.