Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðburðasögur/Árni Oddsson
Árni Odsson
Árni var sonur Odds biskups Einarssonar í Skálholti. Hann hafði mannazt vel bæði innanlands og utan og verið þrjá vetur í Kaupmannahöfn og var þá settur yfir skóla í Skálholti tvítugur að aldri (1612) sem Espólín segir. Eftir það tók hann að stunda lögvísi er honum kom að haldi, bæði áður en hann varð lögmaður og eftir. 1606 varð maður sá höfuðsmaður hér á landi er alþýða hefur lengi kallað „Herlegdáð“, en raunar hét hann Herluff Daae. Hann átti í brösum við marga landshöfðingja og ekki sízt við Odd Skálholtsbiskup. Ófrægði Herlegdáð biskup mjög erlendis og afflutti mál hans fyrir konungi; taldi það einkum að biskup vígði suma ólærða til presta, er hvorki hefðu lært í latínuskóla né kynnu latínu, fyrir venzla sakir, vináttu eða fjár. En Oddi biskupi tókst að hnekkja þessum áburði. Þó var mikið tilhæfi í því eins og hinu að biskup veitti treglega fátækra manna börnum viðtöku í Skálholtsskóla nema með þeim væri lögð jörð eða jarðarpartur, og varð höfuðsmaður stundum að skerast í að slíkir menn fengi viðtöku afarkostalaust. Aftur á móti átti biskup gildar sakir á höfuðsmanninum, fyrst það er höfuðsmaður hafði leyft hjónaband þrímenningum án konungs vitundar, en móti biskups ráði; það annað er höfuðsmaður virðist hafa byrlað honum ólyfjan svo að hann lá eftir tvo eða þrjá sólarhringa. Margt vað það og fleira er þeim braut í milli höfuðsmanni og biskupi.
Í þessum deilum sendi biskup Árna son sinn utan 1617 til að standa fyrir sínum málstað þar móti Herlegdáð, og kom hann svo fram málum sínum við konung að hann sendi umboðsmenn sína út hingað sumarið eftir til að dæma þessi mál og önnur.
Meðan Árni dvaldi í Kaupmannahöfn veturinn eftir bar svo við að hann gekk fyrir opinn glugga á höll þeirri er konungur var í og átti þá einmitt tal við Herlegdáð. Árni verður þess skjótt áskynja og staldrar við. Heyrir hann þá að konungur spyr Herlegdáð hversu margir skattar séu af Íslandi. Herlegdáð svarar: „Sjötíu.“ Þá gat Árni ekki á sér setið og gall við: „Nú lýgur Herlegdáð að konunginum, því skattarnir eru ekki aðeins sjötíu, heldur sjö sinnum sjötíu, aðrir segja sjötíu sinnum sjötíu.“ Herlegdáð varð bilt við mjög er hann var gjörður að ósannindamanni frammi fyrir kóngi og bað kóng um að láta prófa málið næsta sumar, og því hét kóngur. Síðan stefndi Herlegdáð Árna til alþingis næsta sumar.
Snemma sumarið eftir (1618) komu út hingað erindisrekar konungs til að álíta mál höfuðsmanna og biskups og svo annara manna. En Árni kom ekki, hvorki til að færa fram varnir fyrir föður sinn né sig móti höfuðsmanni. Var svo riðið til alþingis að engar spurnir komu af Árna, en hitt þótti sannspurt að öll Íslandsför væri út komin sem hingað áttu að fara það sumar. Byrjaði svo þingið að Oddur biskup var með böggum hildar, bæði af burtuveru sonar síns og af því að hann sá að öll mál mundu falla á þá feðga er öll gögn vantaði og Árni hafði með sér. Leið nú til þess að mál þeirra biskups og höfuðsmanns áttu að koma í dóm. Var þá kallað tvívegis í lögréttu á Árna með stundar millibili. En Herlegdáð þóttist nú hafa mál þeirra feðga mjög í vasa sínum og á meðan leið á milli hins fyrsta og annars kallsins hreytti hann spélnisorðum að biskupi, hvað Árni sonur hans væri nú að sýsla. Biskup lét sem hann yrði þess ekki var. Var þá kallað í annað sinn á Árna. En er það kall var afliðið bað biskup hina konunglegu erindisreka að gefa sér litla hvíld á meðan hann brygði sér frá og var honum leyft það. Síðan gekk Oddur biskup upp á Almannagjáarbarm að litast um ef hann mætti sjá eitthvað sér til hugarhægðar.
En það er frá Árna að segja að hann dvaldi í Kaupmannahöfn veturinn 1617-18 sem fyrr segir. Hann hugsaði þann tíma eingöngu um mál föður síns og sín að undirbúa þau til alþingis sumarið eftir, en ekkert um það að taka sér far út hingað. Herlegdáð hugsaði minna um málatilbúnað en um útkomu sína og Árna, en um sína á hvern hátt því hann réð sér sjálfum far á herskipi því er hinir konunglegu erindisrekar komu út á, en á hinn bóginn lagði hann blátt bann fyrir suma skipara að þeir flyttu Árna um Íslandshaf, en bar fé á suma til þess að gjöra það ekki. Um vorið er íslenzk kaupför létu frá Kaupmannahöfn gekk Árni á milli allra farráðenda, fyrst þeirra er áttu að fara í Sunnlendingafjórðung og síðan hinna er annars staðar áttu verzlunarviðskipti við Ísland, en fékk hvergi far því engir þorðu að taka við honum fyrir ráðríki Herlegdáðs. Sat svo Árni eftir af öllum Íslandsförum með sárt ennið sem geta má nærri. Þegar ekki var nema vika eftir til alþingis um sumarið var Árni einu sinni að ganga með ströndinni fyrir utan Kaupmannahöfn; segja sumir að hann hafi átt þar góðan vin, gamlan að aldri, hafi Árni farið til hans mjög dapur í bragði og beðið hann að flytja sig um Íslandshaf. En karli hafi þótt úr vöndu að ráða, en sagzt þó mundi treysta á fremsta með það; hafi hann þá dregið fram skúffu eina litla úr skáp sínum, borið hana til sjávar og flutt Árna á henni til Íslands og komið út í Vopnafirði er tveir dagar voru til alþingis. En hinna sögn er öllu trúlegri sem segja að Árni hafi er hann reikaði með ströndinni, sem fyrr segir, séð mann á báti skammt frá landi; hafi hann kallað til mannsins og beðið hann að flytja sig um Íslandshaf því líf sitt og virðing föður síns væri í veði ef hann væri ekki kominn þar í ákveðinn tíma. Maðurinn hét honum farinu og sté Árni þegar á ferjuna. Dregur farmaður þá upp segl og siglir um hríð hraðbyri. Þegar stund var liðin spyr farmaður Árna hvort nóg gangi. Árni kvað því fjarri fara. Herti þá farmaður enn skriðinn á skútunni til muna og fór því fram um stund. Eftir það spyr farmaður Árna í annað sinn hvort honum þyki skriðurinn nógur. Árni sagði: „Betur má ef duga skal.“ Herti farmaður þá enn skriðinn svo Árna þótti skútan nálega fleyta kerlingar. Þá spyr farmaður hann hið þriðja sinn hvort Árna þætti skútan ganga nóg. Árni sagði: „Þetta nægir ef guð vill.“ Segir síðan ekki af ferðum þeirra fyrr en þeir taka land í Vopnafirði tveim dögum fyrir alþing. Ekki er þess getið hvað Árni hafi gefið flutningsmanni fyrir farið né heldur hvernig þeir skildu.
En undireins og Árni varð landfastur keypti hann sér tvo úrvalshesta margalda og reið þeim þann dag allan; hafði hann sprengt annan þeirra, en gjört hinn uppgefinn, er hann kom að einhverjum bæ á Jökuldal. Hann falaði þar hesta er sér dygðu að ríða á þrem dægrum skemmstu leið hvíldarlaust til alþingis. Var honum vísað til hests á einum bæ þar í dalnum er honum mundi duga einhesta ef hann fengi aðeins að drekka. Árni fær sér þann hest og er ekki getið hvað hann hafi fyrir hann gefið. Sá hestur var brúnn að lit, mjór sem þvengur og sívalur. Árni tekur hestinn og ríður honum allt þar til hann kemur að Brú; það er efstur bær á Jökuldal og síðastur er farinn er Fjallavegur og Sprengisandur suður. Árni kemur þar á kvíabólið er verið er að mjalta eftirmjölt. Hann biður að gefa sér að drekka. Konan var í kvíunum og sótti honum heim rjóma, en kom um leið með eitthvað í svuntu sinni. Meðan Árni var að drekka segir konan: „Ég vænti þig langi í sopann þinn líka, Brúnn minn.“ Síðan hellir hún saman eftirmjöltinni í eina fötu sem tók yfir fjórðung, gengur að hestinum og setur hana fyrir hann. En Brúnn kumraði við henni og hætti ekki fyrr en hann hafði lokið úr fötunni. Á meðan hann var að drekka var konan alltaf að klappa Brún og andvarpa yfir honum. Árna þótti hún víkja kunnuglega að hestinum og spurði hana hvernig á því stæði; en hún kvaðst hafa alið hann upp í búrinu hjá sér og látið hann nauðug burtu og hún héldi hann reyndist mannbær. Síðan þakkaði Árni konunni greiðann og sté á bak, en í því tók konan smérsköku úr svuntu sinni og stakk upp í klárinn og mælti: „Það er ekki fyrsta damlan sem þú færð, Brúnn.“ Árni kvaddi vel konuna, en hún árnaði bæði honum og hestinum alls góðs. Eftir það lagði Árni á hinn lengsta fjallveg sem til er á Íslandi, um sólarlag, er tæp þrjú dægur voru til þess er alþing skyldi byrja.
Nú er þar til að taka sem fyrr var frá horfið að Oddur biskup kemur upp á Almannagjáarbarm og svipast þar um með sveinum sínum í ýmsar áttir er leiðir lágu að til alþingis. Þegar þeir höfðu verið þar um hríð var biskupi litið upp með Ármannsfelli og sér að þar gýs upp jórreykur er fer svo ótt yfir að biskupssveinum þótti undrum sæta. Þá segir biskup er hann hafði séð reykmökkinn um stund: „Væri Árna sonar míns von hér á landi þá segði ég að hann væri þarna á ferð.“ Eftir það gekk biskup til lögréttu. Var þá kallað nafn Árna í þriðja sinn er biskup var kominn aftur. En það stóðst á endum að Árni var kominn svo tímanlega að hann mátti nema hljóðið er kallað var, gegndi þegar af hestbaki og sagði: „Hér er Árni Odsson kominn fyrir guðs náð, en ekki þína, Herlegdáð.“ Sté Árni þegar af baki hesti sínum er þá var sem eitt moldarstykki hélað á að sjá og stóð reykjarstrokan úr nösum hans. Biskupssveinar hirtu Brún, en Árni gekk til föður síns og minntist við hann og gekk síðan til dóma eins og hann stóð. Færði hann þar fram svo ágæta vörn í málum föður síns og sínu að hinir konunglegu erindisrekar dæmdu Herlegdáð með smán frá höfuðsmannsembættinu og í stórsektir til konungs, en þá Odd biskup og Árna sýkna saka. Vóx af þessu vegur Árna og virðing svo mjög að hann varð síðan lögmaður sunnan og austan á Íslandi. En það er sögn manna um Brún að aldrei hafi betri eða traustari hestur borið há á Íslandi en hann.