Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðburðasögur/Árni sterki Grímsson
Árni sterki Grímsson
Maður er nefndur Árni og var Grímsson; hann hefur að líkindum verið ættaður af Vesturlandi. Þess er fyrst um hann getið að þegar hann var unglingur og þá smali hafi hann tekið hest förukalls eins og riðið eitthvað lítið, en kall komst að því og reiddist ákaflega og mælti það um fyrir Árna að hann skyldi aldrei verða óstelandi þar til hann væri búinn að vinna sér til hengingar.
Sama dag var hann sendur til næsta bæjar; þá sá hann unglambahöft á uglu í bæjarþili og stal þeim og hélt síðan slíkum vana um hríð. – Árið 1745 segir Espólín: Árni hét maður undan Jökli; sá var Grímsson; hann hafði stolið stórum á Grundarfirði og var dæmdur til kagstrýkingar og Brimarhólms; en ekki náðist hann. – Við árið 1747 getur Espólín þess að þrír þjófar hafi lagzt út og var einn Árni Grímsson sá er fyrr getur; þeir vóru teknir í hellir einum af bændum í Bárðardal og var Árni síðan í Skagafirði í varðhaldi með Skúla sýslumanni er síðar varð landfógeti. Árni var vel að sér um margt, þjóðhagi og skraddari, og mér er af fróðum og réttorðum manni þannig sögð lýsing hans: hávaxinn maður, þykkur undir höndum, rauðbirkinn á hár og beinamikill í andliti, sterkur sem hestur, syndur sem selur, skjótur sem dýr og hagur sem dvergur.
Þegar Árni var í varðhaldinu hjá Skúla hafði hann tvo fanga aðra og vóru þeir allir í sama húsi. Eitt kvöld kemur Skúli til þeirra og talaði eitthvað hljótt við Árna, en ekki vissu hinir hvað það var. Um nóttina sögðu þeir að Árni hefði hlaupið upp á bitann í húsinu, en það komust þeir ekki; fór hann svo eftir bitanum og út undir þekjuna og lyfti henni með bakinu frá veggnum og smaug þar út á milli.
Morguninn eftir kom það upp að Árni var strokinn úr varðhaldinu; lét Skúli þá safna mönnum og var leitað í þrjá daga. Var Skúli sjálfur með alla dagana og leitaði í sama stað jafnan, en það var í fjalllendi skammt frá bæ hans. Varð leitin til einkis og fannst Árni ekki. Var þá send lýsing af honum um landið þar sem helzt þóttu líkindi til að hann mundi fram koma.
Nærri þessum tíma kom maður í Vaðalseyri svonefnda við Jökulsá í Axarfirði hjá Ferjubakka og beiddist fars yfir ána. Ferjumaður spurði hann að heiti, en hann kvaðst Einar heita. Ferjumaður segir: „Hygg ég hitt sannara eftir lýsingu sem hér er komin að þú sért Árni hinn sterki Grímsson er straukst úr varðhaldi í Skagafirði, og er mér fyrirboðið að flytja þig yfir ána.“ Einar segir: „Þú skalt flytja mig yfir ána og þó með þeim hætti að þú mátt vel sverja að hafa ekki ferjað mig, því þó ég hefði máske getað synt yfir hana hirði ég ekki um að freista þess að raunalausu.“ Að svo mæltu hratt Einar ferjunni frá landi og skipaði hinum að róa, en krækti einum fingri inn fyrir stafn ferjunnar og hélt sér þannig yfrum ána. Þegar hann skildi við ferjumann þakkaði hann honum flutninginn.
Það er sagt að þegar Árni (sem þar eftir var alla ævi Einar kallaður) kom að Ferjubakka hafi hann haft tvenna leðurskó gatslitna á baki, en þá þriðju nýja á fótunum, og að öðru var hann viðlíka útbúinn. Þóttust menn sjá eftirleiðis að Skúli hefði fyrst ráðlagt honum að flýja og vísað honum til hælis meðan á leitinni stóð, en síðan sjálfur leitað á því svæði og fært honum þá það er hann helzt með þurfti. Mun Skúli hafa látið hann njóta atgjörvis að hann var honum svo liðsinnandi.
Nú er að segja frá Einari að hann hélt áfram þar til hann kom að Sauðanesi á Langanesi; það var að áliðnum degi. Illhugi[1] er nefndur prestur sá er þá var á Sauðanesi; það var mikill maður vexti og sterkur. Einar barði á dyrum og kom prestur til dyranna og spyr komumann að nafni, en hann nefndist Einar og bað prest gistingar. Hann tók því vel og sagði að gaman væri að sjá afl hans, „því þú ert sagður hið mesta afarmenni, Árni sterki,“ og leit prestur til hans brosandi. Einar rétti þá fram lófana og sagði við prest að hann skyldi standa á lófum sér og gjörði prestur það. Gekk Einar svo með hann um hlaðið og þótti presti það mikil aflraun. Síðan fylgir hann Einari inn og upp í hús þar sem kona hans var og biður hana að gjöra þessum manni gott. Hún fór ofan og kom aftur með átmat á stóru tinfati. Prestur tók við og lagði fatið saman tvöfalt og rétti að Einari þegjandi, en hann tók við og rétti við aftur það sem prestur hafði beglt og borðaði síðan af því; en þegar það var búið tók hann með sínum tveimur fingrum hvurumegin í brúnina á fatinu og reif það í sundur þvert yfir og lagði báða partana á borðið. Prestur brosti að, en talaði ekkert.
Staðnæmdist Einar á Langanesi og giftist konu er Guðrún hét, og átti með henni börn nokkur og er ætt út af honum hér á Austurlandi. Jafnan hafði hann verið fátækur, en aldrei bar á þjófnaði hans eftir það að hér var komið sögunni. Hann bjó í Skoruvík á Langanesi og svo Skálum, en síðast undir Heiði, og eru um hann ýmsar sagnir og telst hér fátt eitt.
Þegar hann var í Skoruvík gekk hann einn tíma um vetur í harðindum og bjargarskorti á fjörur. Var svellgarður mikill við sjóinn og brim, en í einum stað sýnist honum eins og eitthvað sé kvikt undir sullgarðinum og fór ofan fyrir; lá þá afarstór hákall þar upp undir og náði Einar á honum handfesti og hélt honum þar föstum þar til fjaraði frá, og tók þó sjórinn honum undir hendur þegar hann kom fyrst að.
Þegar hann fór frá Skálum er mælt að þangað hafi farið til búskapar bræður tveir og varð Einari sundurorða við þá á hlaðinu á Skálum, en þar er svo umhorfs að feikilega hátt fuglabjarg er fast við hlaðið. Sló annar þeirra til Einars, en Einar sló hann aftur svo mikið högg að hann rauk um koll og hefði farið fram af berginu ef bróðir hans hefði ekki náð í hann um leið og hann féll. Varð manni einum það að orði er hann heyrði: „Hvað ætli maðurinn hafi hugsað að slá hann Einar sterka á þeim stað?“
Þegar Einar sterki bjó undir Heiði bar það við eitt sumar að dugga útlenzk lagðist nærri bænum. Komu skipmenn sex á land og heim að bænum og hittu svo á að Einar var ekki heima við bæinn. Tóku þeir Guðrúnu konu hans og tólf ær er þau áttu og höfðu ofan að sjónum þar er báturinn var. Í það bil kom Einar heim og þótti heldur eyðilegt á heimili sínu og grunaði hvað vera mundi og hljóp ofan að sjónum og hitti þá svo á að þeir voru búnir að binda Guðrúni og allar ærnar og farnir að tína þær í bátinn. Kom þá svipur mikill á Einar og er mælt að þeir hafi fallið fyrir honum fimm þar í fjörunni, en einn komst í bátinn og út til skipsins, en Einar fór á eftir út í skipið og kúgaði fé af skipstjórnarmanni, því hann hræddist Einar og keypti sig í frið við hann. Bjó Einar lengi að því er hann fékk hjá duggurunum.
Síðast á ævi sinni fór Einar sterki að Svalbarði til prests er Ólafur[2] hét; Grímur hét sonur hans. Á sumardag fyrsta eitt sinn var það um morguninn að Einar var að girða ask sem hann ætlaði að gefa prestkonunni í sumargjöf. Kom Grímur prestson að og tók eina gjörðina af ertni við Einar og braut. Einar varð styggur við og sagði: „Ekki er þér gæfu upphaf að erta mig, og verður þú hengdur,“ – og er um hann sagt að hann hafi farið í Hólaskóla og verið flæmdur þaðan fyrir galdrakukl, síðan lent til Danmerkur og að lokum verið hengdur af enskum er þá áttu í ófriði við Dani, en Einar var dáinn um nón á þenna sama fyrsta sumardag og nú var um talað.
Það er haft eftir Einari sterka að þegar hann var uppvaxtarpiltur var hann til vers í einni veiðistöð undir Jökli. Þar var tangi hjá sjóbúðunum er gekk í sjó fram, og var það siður vermanna að halda bændaglímu á tanganum þegar tunglskin var á kvöldin. Einn maður var þar sem Jón hét; hann var öllum þar fremri að glímni og kallmennsku. Eitt kvöld þegar þeir vóru að glíma og Jón felldi alla eins og hann var vanur þá sáu þeir að maður kom upp úr sjónum og staðnæmdist á eyraroddanum; sýndist þeim hann ærið stórkostlegur. Jón sagði að gaman mundi að reyna við þennan kall, en aðrir sögðu að ekki mundi ríða á að eiga við hann. Jón fór engu að síður og það sáu þeir að þegar hann kom að þessari ófreskju að hún henti Jóni svo hátt í loft að þeir sáu hann valla, og kom hann niður aftur í mörgum pörtum. Fóru þá hinir vermennirnir heim að skálum sínum, og kvað Einar þá hafa verið hætt um hríð að glíma á kvöldin, og hef ég nú ekki fleira að skrifa um Einar eða Árna sterka. – Endir.