Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðburðasögur/Ófall Torfa á alþingi
Ófall Torfa á alþingi
Það var eitt sinn á alþingi er Torfi gekk til lögréttu að mæla lögskil í björtu veðri og heiðskíru að allt í einu sáu menn draga upp svartan hnoðra lítinn norður yfir Skjaldbreið. En sem hnoðrinn færðist nær sýndist mönnum hann vera í fuglslíki og stefna á Þingvöll. Þegar fuglslíki þetta kom yfir völlinn steyptist það yfir Torfa. En honum brá svo við að hann rak upp ógurlegt hljóð og varð of sterkur svo að margir urðu að halda honum, og tókst það um síðir að koma honum í bönd. Þar með var augnaráð hans svo ofboðslegt með ópi og ýlfran að öllum stóð ógn af hvorutveggja enda þótti þetta ekki einleikið. Urðu þá til góðgjarnir menn með vinum Torfa að biðja Stefán biskup að líkna honum og bæta mein hans. Biskup lét þá tilleiðast fyrir bænastað þeirra og nauðsyn Torfa þótt biskupi þætti hann ekki slíks frá sér maklegur; gekk hann þó þangað sem Torfi lá, með öllum kennilýð, og hvolfdi stakksermi sinni yfir höfuð honum, féll á kné og allir með honum til bænar. Við lestur og söngva biskups og klerka hans sefuðust kvalir Torfa svo að honum smábatnaði síðan. Eftir þetta batnaði mikið vinfengi Torfa og biskups, en þó greri aldrei um heilt með þeim.
Dýrkeypt var og konu Torfa kirkjuleg hans í Skálholti því Stefáni þótti hann varla kirkjugræfur; en þar hafði Torfi kjörið sér leg í lifanda lífi. Hann dó skömmu eftir aldamótin 1500.