Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðburðasögur/Örnefni í Útmannasveit

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Örnefni í Útmannasveit

Uni hinn danski Garðarsson kom skipi sínu að Ósum, Austfjörðum, og byggði þar sem síðan heitir Unaós sem er yzti bær með fjalli í Útmannasveit. Þar sér enn þrjár tóftir stórkostlegar á túninu, sem honum eru eignaðar. Hann nam land allt til Unalækjar sem enn er kallaður í Eiðamannaþinghá. Fyrir innan bæinn á Unaósi er klettur hár og mikill sem kallaður er Knör; þar segir að skipinu hafi verið fest við í forntíð meðan stórvötnin, Jökulsá á Brú og Lagarfljót, féllu þar út sem enn sér merki til, því vatnsfarvegir miklir liggja þvert frá Jökulsá í Lagarfljót fyrir innan Húsey, og frá Lagarfljóti er vatnsfarvegur mikill þvert fyrir innan Hólsey allt í Selfljót, sem kallast Jökullækur, nú stararengi frá mörgum bæjum.

Bæjarleið frá Unaósi inn með Selfljóti að norðanverðu eru garðalög og tóftir miklar sem heitir Arnarbæli. Segja menn þar hafi verið kaupstaður kenndur við Örn. – Við fyrrnefndan Jökullæk skammt frá Lagarfljóti eru garðalög og tóftir miklar sem heita Bakkatóftir. Þar hefir verið hjáleiga skammt burtu við lækinn. Er ekki ólíklegt þar hafi verið vað á vatnsfallinu, því þegar þeir riðu til Njarðvíkur, Droplaugarsynir og Krossvíkingar, eftir fall Þiðranda, getur um í Fljótsdælu að þeir hafi riðið á Bakkavaði.

Allt land til sjávar frá vatnsfarveg þessum kallast Eyjar. – Fornbýli eru nokkur á Eyjum þessum: Ingveldarstaðir, þar átti að vera kirkja í fyrndinni, sér enn mikil garðalög, en vorðið mikið blásið þar sem bærinn hefir verið. – Hrafnkelsstaðir austarlega á Eyjum, ekki miklar rústir. – Stóri-Grænmór, nokkuð frá sjó; á sautjándu öld löfðu þar uppi kofar og fékkst lengi taða af bæjarrústunum; þar var illt vatnsból á veturna svo sækja varð í Lagarfljót, stífa stekkjargötu. Eitt sinn í kafaldsveðri ætlaði bóndinn að sækja vatn í Lagarfljót og kom ekki aftur, en um nóttina eftir var þetta kveðið á glugganum upp yfir konunni:

Frost og fjúk
liggur fast á búk,
frosinn er mergur í beinum;
orðtækið gamla sannast nú,
að fátt segir af einum.

Þókti mönnum hann ganga mjög aftur. Lagðist þá niður byggð á Grænmó.

Allt þetta land utan Jökullæk til sjóvar er slétt og hefir að líkindum verið sjór í öndverðu; merki sjást til þess á því að stífa bæjarleið inn frá sjó hafa stærri og smærri fauskar af rekatrjám komið úr jörðu þar sem Lagarfljót hefir brotið upp á löndin og öll legið eins fyrir og tré vanalega á rekum. Eitt sinn kom átján álna fauskur í mínu minni undan fjögurra álna jarðarþykkt.

Tvær bæjarleiðir inn með fjalli frá Unaósi er býli kallað Hlaupandagerði; þar bjó Ásbjörn vegghamar er hljóp frá konu og krökkum ofan í Njarðvík til Ketils þryms og bardaginn hlauzt þar af, fall Þiðranda og Ketils, líka hrakningar Gunnars.

Þaðan frá inn og vestur heita Kóreksstaðir, þar bjó Kórekur karl er sókti sonu sína í Njarðvík óvíga eftir bardagann. Utan bæinn á Kóreksstöðum spölkorn er stakur klettur með stuðlabergi umhverfis, kallaður Kóreksstaðavígi; hann er hár og sagt að í forntíð hafi ekki vorðið komizt upp á hann nema að sunnanverðu. Í munnmælum er að Kórekur hafi varizt þar óvinum sínum og fallið þar að lokunum og verið þar heygður; merki sjást líka til þess ennþá upp á klettinum að einhvör hefir verið heygður þar, og hefir verið girt um hauginn. Í mínu minni var þar grafið í og fannst ryðfrakki af vopni, en var svo ryðgað að ekki gat sézt hvörnig það hafði verið lagað.

Ekki veit ég örnefni fleiri á Útmannasveit er koma við fornar sögur og er líka óvíða kunnugur í sveitum svo ég get lítið sagt frá þess konar. Heyrt hefi ég að enn sjái merki til undirgangsins sem Grímur Droplaugar[son] gróf frá læknum inn í Eiðaskálann, þá hann drap Helga Ásbjarnarson, þar sé dæld eða sigin niður jörð einlægt frá læknum og heim í bæjarrústirnar.

Margir söguþættir voru til nokkru fyrir mitt minni sem nú eru týndir; tel ég til þess þátt af Ásgrími sem bjó á Ásgrímsstöðum í Hjaltastaðaþinghá, Galta, Geira og Gunnhildar er bjuggu á bæjum sem við þau eru kenndir utan Kirkjubæ í Hróarstungu; en fátt hefi ég heyrt úr söguþáttum þeim nema þau komu Hellirsheiði úr Vopnafirði og börðust fyrst á heiðinni, svo þegar komu ofan, þar eru dysjar, og síðast milli bæja sinna við læk, sem heitir síðan Haugalækur. Þar eru haugar við lækinn, en ekki hafa nafn nema tveir, Galta og Gunnhildar; þau áttu að falla þar.

Á Hellirsheiði norðan megin í dal sem heitir Jökuldalur er enn kallaður Brimarshaugur, þar sem Þorsteinn uxafótur var leiddur í, sem segir í sögu hans. Það er melhóll einn mikill.