Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðburðasögur/Þórdís spákona

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862)
Þórdís spákona

„Kona hét Þórdís og illa lynd; hún bjó að Spákonufelli á Skagaströnd,“ segir Kórmaks saga. Þessu er munnmælasögnin um Þórdísi samsaga. Þórdís var bæði mikils verð og margs kunnandi, forvitra og framsýn og var tekin að gera um stórmál sem Vatnsdæla segir, og ráðrík í héraði svo hún vildi nálega ein öllu ráða norðan af Skagatá og inn að Laxá ytri og var þar fyrir öllum héraðsmönnum svo engum dugði að sitja eða standa öðruvísi en Þórdís vildi; svo var ríki hennar mikið. Þetta má ráða af því að hún gaf ýmsum kirkjum eftir sinn dag hlut í rekum, bæði hvalrekum og viðrekum, í fyrrnefndu takmarki, og heitir sá hlutur enn Spákonuarfur í máldögum kirknanna á Höskuldsstöðum, Holtastöðum og Mársstöðum, því þar hafa þá setið vinir hennar; því eins og Þórdís var ráðrík og grálynd við suma eins var hún vinur vina sinna svo sem var Þorkell krafla í Vatnsdal þegar hún liðsinnti honum í eftirmálinu eftir Glæði, Þorvarður Eysteinsson úr Fljótum sem hún efldi til hólmgöngu í móti Kórmaki og Þorvaldur víðförli Koðransson frá Giljá, fóstri hennar. Aftur átti hún óvildarmenn, svo sem Kórmakur er spillti öllum töfrabrögðum hennar þegar hún ætlaði að veita honum lið ekki síður en Þorvarði, en hann bar ekki gæfu til að þiggja. Þó er sagt að henni hafi ekki farizt jafnilla við neinn sem prestinn á Hofi og lét hún Hofkirkju gjalda hans í því að hún gaf henni enga reka eftir sig; á því sú kirkja engan reka nema fyrir sínu landi, og „hvalvætt“ eða „skurð í hval hverjum sem kemur millum Fossár og Deildarhamars“, en ekki er það Spákonuarfur.

Þegar Þórdís var á dögum er sagt að prestur sá hafi verið á Hofi sem Eiríkur hét; hann var ekki blár innan, en þó ekki mjög kenndur við galdur. Hann átti grákollótta á eina sem hann hafði miklar mætur á; þó er þess ekki getið að hún hafi alið lömb og aldrei var hún mjólkuð í kvíum. Hún gekk sjálfala hvar sem var og kom hún stundum til hans eða elti hann þar sem hann var á ferð. Svo hagar til að kippkorn fyrir ofan bæinn á Spákonufelli er fjall mikið og hátt og dregst nokkuð að sér ofan, en efst á því eru vegghamrar og sýnist engri skepnu þar fært upp að komast; norðan í því heita Leyningsdalir eða Leynidalir, eitt af miðunum á Sporðagrunni. Í þeim dölum eða lægðum er einna bezt beitiland í fjallinu svo ofarlega sem þeir eru þó; er þar bæði víðir nógur og reyniviðarhríslur nokkrar. Það er nú sem auðvitað að Þórdís spákona þóttist ein eiga öll ráð á fjalli þessu og nytjum þess, og hafði hún mestu mætur á því og kallaði það eftir sér eins og bæ sinn Spákonufell, en nú er það kölluð Spákonufellsborg; þar ætlaði hún sér að bera beinin. Hún var vön að ganga á hverjum degi upp í fellið upp undir hamrana að vestanverðu þaðan sem hún gat séð yfir bæ sinn og alla Skagaströndina út á Skaga og inn til dala og yfir til Hornstranda yfir þveran Húnaflóa. Þar sat hún löngum og greiddi hár sitt með gullkambi. Af því Grákolla séra Eiríks á Hofi gekk sjálfala og hirðislaus sem fyrr var sagt, ýmist í túninu á Hofi eða hvar annarstaðar sem henni þótti bezt, og fór ekkert að því hver landið átti sem hún gekk í, en oftast er sagt hún kæmi heim á kvöldin til prestsins og strauk hann henni þá og gerði gælur við hana, Grákolla rann af þessu víða um beitilönd bæði í byggðinni og á fjöllum til að leita sér að hagkvisti þar sem bezt væri, og fór svo á endanum að hún komst inn í Leyningsdali norðan í Spákonufellsborg; rann hún þangað síðan á hverjum morgni, en kom heim aftur á kvöldin. Ekki leið langt um frá því Grákolla fór að venja göngur sínar inn í dali þessa að Þórdís yrði hennar vör og stuggaði hún Kollu jafnan burt úr dölunum þegar hún kom upp í fellið á daginn. En það tjáði ekki því Kolla var þrá sem sauðfé er gjarnt til og kom aftur og aftur þó hún væri rekin burtu um sinn.

Eitthvert sinn eftir þetta vandaði Þórdís um þetta við prest og sagði honum að láta taka Grákollu úr landeign sinni svo að hún gerði sér ekki átroðning og beitarusla í fellinu þar sem bezt væri og sagði hann hefði nóg land handa henni og sínum fénaði og að hann þyrfti ekki að ásælast sig. Af því séra Eiríkur þóttist fyrr hafa kennt kaldlyndis Þórdísar og illvilja til sín í mörgum greinum tók hann lítið undir þessa umkvörtun hennar og sagði að Grákolla sín mundi þann einn usla gjöra í landi hennar að henni mundi ekki verða mein að þó ein kind kroppaði þar öðru hverju. Þegar Þórdís heyrði þessi svör af presti bað hún hann sjálfan ábyrgjast Kollu sína ef hann bætti ekki úr hirðuleysi því sem á henni hefði verið um hríð. Við það skildu þau talið. Eftir þetta fór hinu sama fram um stund að Grákolla sótti í Leyningsdali þó prestur vildi varna henni þess, en kom alltaf sjálfkrafa heim á kvöldin sem fyrri.

Nú leið og beið þangað til eitt kvöld að Kolla kom ekki heim og leið svo nóttin og fram á dag daginn eftir að hún kom ekki. Séra Eirík grunar að nú sé ekki allt með feldi um hag Grákollu og lætur hann nú leita hennar inn í Leyningsdali. Þar fannst Kolla dauð; hafði Þórdís hryggbrotið hana með stóru bjargi sem hún hafði fleygt norður af hömrunum á Spákonufellsborg ofan í dalina og Kolla orðið þar undir. Leitarmenn fóru heim við þetta og sögðu presti hvernig komið var. Presti fékk þetta svo mikillar áhyggju, að hann hafði misst Grákollu, að hann lagðist í rúmið um stund og sinnti lítið öðrum mönnum.

Nokkru seinna kallar hann til sín smalamann sinn því honum trúði hann bezt og fær honum vettling sinn og biður hann fara með hann suður á Spákonufellsborg og sæta því lagi að láta hann falla vestur af fjallseggjunum svo að hann komi á bak Þórdísi þegar hún sé setzt þar að greiða hár sitt og skila um leið til hennar að þetta sé þóknun frá Hofsprestinum til Þórdísar fyrir hana Grákollu. Smalinn fór sem prestur bauð honum, og framkvæmdi erindið. En þegar hann lét vettlinginn falla kom hann lítið eitt við eggjarnar á fjallinu og varð af því skruðningur nokkur. Þá sá smalinn að Þórdís leit upp fyrir sig þar sem hún sat undir hamrabeltinu og var að greiða hár sitt og sveiflaði því frá sér til að sjá hvað um væri að vera og sá hann þá í augu henni, en við það leið yfir hann á bjargsbrúninni og lá hann í ómegi lengi dags. En þegar hann raknaði við sá hann að Þórdís lá dauð undir hömrunum; hafði vettlingur prestsins orðið að þungum kletti á leiðinni niður og hryggbrotið hana. Við það fór smalinn heim og sagði presti allt af sínum förum. Við þær fréttir varð prestur alheill og reis úr rekkju. En Skagstrendingar lofuðu lausn sína frá ágangi og yfirráðum Þórdísar, en vissu þó ógjörla hverjum þeir áttu að þakka hana.

Það er sagt um Þórdísi að hana hafi grunað að hún mundi eiga skammt eftir þegar hún var búin að drepa Grákollu; hafi hún því tekið kistu sína eina sem allar gersemar hennar og auðæfi voru geymd í, farið með hana upp í Spákonufellsborg og sett hana þar á klettahillu framan í hömrunum með lykilinn í skránni og sagt að sú kona skyldi eignast kistuna og öll þau auðæfi sem í henni væri sem væri svo uppalin að hún væri hvorki skírð í nafni heilagrar þrenningar né nokkur góður guðstitill kenndur, og mundu þá gripirnir liggja lausir fyrir henni og hún eiga hægt með að ljúka kistunni upp. En öllum öðrum skyldi sýnast kistan klettur einn og bergsnagi fram úr þar sem lykillinn væri, og svo lítur hún út enn í dag. Engin kona hefur heldur enn sem komið er orðið rík af kjörgripunum úr kistu Þórdísar spákonu.