Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðburðasögur/Þórdísarstaðir

Norður með hlíðinni skammt frá Þórdísarstöðum í Eyrarsveit eru að sögn seinni manna rústir bæjar þessa og niðurfallnar girðingar túnsins þar. Hefir bærinn Þórdísarstaðir verið þar að öllum líkindum fyrst reistur í landnámstíð, en sökum grjótárennslis úr hlíðinni, snjóþunga og aðfennis seinna fluttur á hól suður með hlíðinni þar sem hann stendur nú. En frá þessu segir hin gamla sögusögn (traditio) allt á aðra leið og það þannig:

Þar sem rústirnar enn sjást norður með greindri hlíð byggði kona ein er Þórdís hét bæinn Þórdísarstaði og hefir hann síðan verið við hana kenndur. Hún var auðug af gangandi pening og lét smala sinn halda sauðfé sínu hinum megin fjallsins við Kolgrafa- og Hvalafjörð í austur frá bæ sínum og hafði þar fjárhúsin á þeim stað austan fjallið (Klakk og Bárarháls) er nefndist Hjarðarból. Var þar þá enginn bær, en seinna þegar hann var reistur þar nefndist hann þessu nafni og heitir svo nú. Smali Þórdísar gætti þar lengi vel fjár hennar, en loksins vildi það óhapp til að allt féð flæddi austanvert við Eyrarodda á skerjum þar sem Klumbur eru nefndar. Við skaða þennan gjörðist Þórdís svo stygg við smalann að honum þókti sér ekki við vært. Varð honum þá það eina til úrræða að hann hengdi sig í fjárhúsunum á Hjarðarbóli. En jafnskjótt sem þetta varð gerðust miklir reimleikar á Þórdísarstöðum af völdum smalans; gekk hann þar um öll hús og gerði alla menn hrædda. En dag og nótt ásókti hann Þórdísi svo nærri lá að hún missti vitið. Til þess að umflýja þennan ófögnuð stökk Þórdís og allir heimamenn af bænum. Var bærinn síðan settur í eyði og fluttur á hól þann er nú stendur hann á. Við þetta létti af öllum reimleikunum á Þórdísarstöðum.