Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðburðasögur/Þorbjörn Kólka (2)

Þorbjörn hafði til beitu:

Fóhorn og flyðrugarnir,
mannsket í miðjum bug
og mús á oddi.

Hann sagði að þegar kippa skyldi, skyldi kippa um fet og þverfet (það er lengd og breidd skipsins).

Miðið: Matklettur[1] er austan fram á Skaga, upp undan Hvalnesi, og hann á, á miðinu, að bera í Ketubjörg eða Klauf í Ketubjörgin, – þetta er austurmiðið – (prentaða útlistunin er hér röng). Kallbakur er á Refasveit, en Kipringsfjall er sama og Tjarnarfjall í Nesjum. Leynidalir eru norðan í Spákonufellsborg. Nú á, á miðinu, að bóla á Kallbak upp yfir Kipringsfjall sem er sama og Tjarnarfjall, og Kipringsfjallið að bera í Leynidali norðan í Spákonufellsborg.

Skammt frá lendingunni í Hafnabúðum er rauf norðan í klettunum sem kölluð er Kólkuker og er mælt að Þorbjörn hafi kastað þar af afla sínum.

Við Þorbjörn er og kennd tjörn hjá Hafnabúðum, kölluð Kólkutjörn; þangað er sókt allt vatn á búðirnar.

  1. Matklettar segja menn dragi nafn af því að menn einu sinni gengu fram á draug í bjarginu, sem var að berja fisk. [Hdr.]