Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðburðasögur/Af Björgu og Nikulási

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Af Björgu og Nikulási

Það er sögn nokkurra gamalla manna undir Eyjafjöllum að stuldarmál Bjargar hefði komið til umræðu á Alþingi og þar hefði enginn dómur verið upp kveðinn í málinu fremur en í héraði, en sú ályktun hefði verið gjörð af höfðingjum, en þó óvíst hvort nokkuð var fært til bókar, að Björg skyldi ekki flengjast – og var það gjört vegna ættgöfgi hennar – en samt skyldi hún brennimerkjast so allir gæti varað sig á henni, en síðan skyldi henni frjálst að flakka milli frænda sinna og kunningja ef þeir vildu nokkuð líkna henni. En hvort brennimark þetta var nokkurn tíma sett á hana vitum vér ekki. Þessi ályktun átti að vera gjör sama dag árið fyr en Nikulás sýslumaður setti sig í gjána, en sumir segja að það hafi verið gjört sama árið og sama daginn og sýslumaður setti sig í gjána um kvöldið.

Það er og sagt að nóttina eftir hann setti sig í gjána um kvöldið þá vöktu tvær vinnukonur í Háfi í Holtum og sátu þær um lágnættið á kirkjuþröskuldinum og höfðu hana opna. Þá bjó í Háfi ríkur bóndi er Þorgeir hét og var hann mikill vinur sýslumanns. Það var vani sýslumanns þegar hann reið af þingi að ríða niður á Eyrarbakka til verzlunarviðskipta og þegar hann reið þaðan kom hann ætíð að Háfi og gisti þar stundum. Þessa fyrtöldu nótt þegar vinnukonur sátu á kirkjuþröskuldinum heyrðist þeim sem riðið væri vestan að bænum og heyrðist þeim vera hringlað í beizlunum. Hugðu þær þá að sýslumaður mundi koma eftir venju og þutu upp og upp í stólinn á hurðarbak og vildu ekki láta sjá sig, en þær heyrðu hringl þetta koma heim á hlaðið og so beina leið inn um sáluhliðið og inn um kirkjudyr og sáu þó ekkert og urðu mjög hræddar. Timburgaflað var í kirkjunni og glergluggi yfir altarinu og heyrðist þeim þetta fara innar eftir kirkjunni í loftinu og innar í kórinn, og í sama vetfangi varð brestur mikill og hrökk þá í sundur glerglugginn yfir altarinu í mola og heyrðist þeim skrölt þetta þjóta út um hann, en síðan heyrðu þær ekkert og héldu menn að þetta hefði verið svipur Nikulásar sýslumanns.