Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðburðasögur/Arakots-Jón
Arakots-Jón
Jón hét maður og var Ófeigsson; hann bjó í Arakoti á Skeiðum og var ekki haldinn frómur. Þuríður hét kona hans. Jón hét son þeirra. Einu sinni þegar Jón bóndi kom úr veri kom hann að Hjálmholti til Brynjólfs sýslumanns.[1] Sýslumaður sagði við Jón: „Það hefir verið stolið í Arakoti í vetur.“ „Já,“ segir Jón, „það var líkara að Þuríður yrði fyrr þjófur en ég.“ „Eftir á að hyggja,“ segir sýslumaður, „það var áður en þú fórst.“ Jón þrætti þess og skildu þeir svo.
Jón Jónsson var snemma latur og kargur og kom sér illa. Faðir hans kvað þetta um hann:
- Sjást mun aldrei soddan flón
- sólu undir ganga
- eins og bölvað barnið Jón,
- böðuls efnið langa.
Þegar hann (Jón Jónsson) var vaxinn, kynntist hann að þjófnaði og eitt vor fyrir sumarmál hvarf hann, og vissi enginn hvað af honum varð.
Guðrún hét ekkja ein fátæk; hún bjó í koti fram undir Eyrarbakka alein. Grannkona hennar bauð henni að finna sig fyrir sumardaginn fyrsta og þá hún það og fór að finna hana miðvikudaginn og var burtu nóttina. Á sumardagsmorguninn fyrsta kom hún heim, og var þá kotið uppbrotið og úr því stolið öllu fémætu; var það helzt fatnaður. Um sömu mundir kom maður fram í Ölvesi. Sá nefndist Þorlákur Jónsson. Hann hafði fatnað til sölu. Hann kom að einum bæ þar. Bóndinn þar lá veikur. Kona hans og dóttir voru þar og ekki fleiri. Þar settist Þorlákur að og var bónda það nauðugt, en þær mæðgur urðu fegnar honum, því hann gegndi fénaðinum fyrir þær. Hann bað þær að umbreyta fatnaðinum og það gjörðu þær. Nú komst bóndi á fætur og fréttist að þar væri ókunnugur maður, sem vildi selja fatnað. Fréttist líka hvarf Arakots-Jóns og stuldurinn frá Guðrúnu. Komst mikið kvis á þetta allt. Þá hvarf Þorlákur burt, en fatnaðurinn varð eftir. Var hann sýndur Guðrúnu. Þekkti hún sumt, en ekki allt sem ekki var von, þar því var umbreytt. Hún fekk það sem hún þekkti, en vantaði þó mikið.
Narfi hét maður. Hann bjó í Stíflisdal (eða Stardal), einrænn og fályndur. Ekkert fólk var hjá honum nema bústýra hans er hét Úlfdís. Hún átti sveit í Grímsnesi. Þangað kom um vorið maður sem nefndist Þorlákur Jónsson. Hann komst í kærleik við Narfa og tjáði oft fyrir honum hvað ónýt bústýra hans væri, sagðist geta útvegað honum duglegri kvenmann ef hann léti þessa fara til sinnar sveitar. Svo fór að Þorlákur réði þessu og fór með hana austur í Grímsnes. Á leiðinni tók hann af henni það sem hún átti í silfri, og hótaði að drepa hana ef hún lofaði ekki að þegja um það. Hún lofaði því, en sagði þó frá því seinna. Þorlákur fór suður aftur. Nokkru seinna komu menn að Stíflisdal. Þeir fundu Narfa hálsskorinn í smiðju sinni og burt var margt fémætt. Nú voru menn sendir í allar áttir að leita Þorláks og fannst hann ekki. Leitarmenn komu á einn bæ í Borgarfjarðarsýslu (á Hvítársíðu?). Þeir spurðu að Þorláki. Bóndi sagði þar hefði komið maður fyrir stuttu, Þorlákur að nafni, og beðizt gistingar og sagðist hann hafa lofað honum að vera, en um nóttina sagðist hann hafa heyrt skurk í skemmu sinni og sagðist hafa farið á fætur [að] forvitnast hvað um væri að vera. Hefði gesturinn þá verið kominn þangað og farinn að stela. Hann sagðist hafa tekið hann og dregið hann út, skipað honum að lesa faðirvor og hefði hann gjört það. Síðan sagðist hann hafa drepið hann og grafið hann tuttugu páltorfur ofan í jörðu fyrir utan tún. Menn þökkuðu honum og var þá hætt leitinni. Hér af er kominn málshátturinn: „Þetta var (er) fallegur Þorlákur.“ Og þóttust allir vita að Arakots-Jón hefði verið þetta allt saman og söknuðu menn hans lítið.
Nú liðu tuttugu ár eða þar um bil. Þá var það eitt vor að maður kom að Skriðufelli, efsta bæ í Gnúpverjahreppi. Sá nefndist Þorsteinn Jónsson, sagðist vera að norðan og vera að betla og bar sig vesallega. Guðrún Þorláksdóttir hét húsfreyja á Skriðufelli, skörungur mikill og gestrisin. Hún var heima og hjá henni tvær vinnukonur. Guðrún veitti gestinum beina og var hann þar um nóttina. Um morguninn talaði Guðrún um að fara nokkuð frá bænum og gekk hún út. Þá skipti gesturinn skapsmunum og heimtaði af vinnukonum skóleður og ýmislegt annað er hann þóttist þurfa. Þær létust ekki hafa það til. Hann hrakyrti þær og hótaði þeim illu. Þá kom Guðrún inn og hafði hún verið í dyrunum og heyrt til hans. Hún varð reið og rak hann burt og fór hann fram í sveit, og hvar sem hann kom nefndist hann Þorsteinn. Á Skaftholti bjó þá Gísli Sigurðsson, mikill maður og ekki við alþýðuskap í sumum hlutum. Þorsteinn kom þar og var spurður að heiti. Hann sagði hið sama og hann var vanur. Gísli heyrði þetta, en þekkti manninn og gall við og sagði: „Ætli þú heitir ekki Þorsteinn! Ég þekki þá engan mann rétt ef þú ert ekki Arakots-Jón, eða ertu afturgenginn? Það var sagt þú hefðir verið grafinn tuttugu páltorfur ofan í jörðu fyrir tuttugu árum.“ Jón svaraði öngvu og fór burt. Hann kom suður á Skeið til skyldmenna sinna og leyndi ekki lengur nafni sínu, en engum manni sagði hann hvar hann hefði verið, enda var ekki gerður rekstur að því. Illa kom hann sér enn og vildi enginn hafa með hann. Hélt hann áfram að flakka og komst fram í Flóa, stal þar sauð og varð uppvís og settur í tukthúsið. Seinna var tukthúsið aftekið og hvur tukthúslimur settur á sína sveit. Jón átti fæðingarhrepp á Skeiðum og kviðu Skeiðamenn mjög við komu hans. Fám dögum áður en fara skyldi úr tukthúsinu, fekk Jón einn dag undarlegt sjúkdómskast svo menn hugðu honum valla líf. Þegar af honum leið lá hann í dái um stund og raknaði síðan við. Menn spurðu hann hvurt hann vissi orsök til þessa tilfellis. „Ekki kom mér þetta óvart,“ sagði hann, „en fá mun ég annað kastið á morgun og mun það verða meira.“ Og svo varð. Kvaldist hann þá ógurlega. Þegar honum var batnað töluðu menn enn um þetta við hann. Þá sagði hann: „Þriðja kastið mun ég fá á morgun, og mun það verða mest og ef ég afber það mun ég verða gamall maður.“ Ekki sagði hann frá orsökinni til þessara kasta. Þriðja daginn fekk hann þriðja kastið. Það var miklu óttalegast og lauk svo að Jón lézt og fekk kvalafullan dauða. Skeiðamenn urðu fegnir dauða hans. Það höfðu allir fyrir satt að Þorlákur hefði verið Arakots-Jón og hefði drepið Narfa, en borgfirzki bóndinn hefði skotið honum undan og logið á sig drápi hans, og mundi Jón síðan hafa flakkað um allt land og gefið sér ýmisleg nöfn.
- ↑ Brynjólfur Sigurðsson (1708-1771) var sýslumaður í Árnesþingi frá 1746 til dauðadags, bjó í Hjálmholti 1747-1770.