Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðburðasögur/Bönnuð kræðan á bakkanum

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
„Bönnuð kræðan á Bakkanum“

Maður bjó á Skeiðum, fátækur frumbýlingur. Eitt vor vildi hann fara í kaupstað ofan á Bakka. Konan bað hann að færa sér út á pottinn. Hann lofar því, en segir lítið sé að kaupa fyrir. Nú fer hann í kaupstaðinn og kaupir sér pott og steðja og dálítið af sölvum. Kvöld var dags er hann sneri heimleiðis. Hann batt sölin með steðjanum móti pottinum og hélt austur Stokkseyrarhverfið. Þar fer hann hjá bæ og sér mikinn sölvabunka undir bæjarvegg. Honum rennur hugur til sölvanna því þau voru miklu vænni en hin sem hann keypti. Hann litast um hvort nokkur sé á flakki, sér engan og fer af baki. Hann tekur nú baggakorn af þessum vænu sölvum og segir: „Þetta sé ég eru nú almennileg söl; það er ekki eins og bönnuð kræðan sem þeir selja á Bakkanum,“ og kastar nú kræðunni. Nú voru stolnu sölin of þung með steðjanum svo hann lætur hann í pottinn á móti, ríður af stað og hraðar ferðinni því hann var hræddur við eftirför. Þetta keppir hann upp allar mýrar þangað til klyfjahesturinn gekk hvergi. Lítur hann þá aftur og sér að allt er undir kviði. Hann fer að lagfæra og sér að hann er orðinn fyrir baga; botninn var brotinn úr pottinum og steðjinn týndur. Við þetta verður hann aumur, en huggaði sig við það hann færði konunni út á pottinn. Síðan hélt hann heim og segir konunni ófarir sínar, en kveðst þó færa henni ríflega út á. Hún lét illa yfir ferðinni, en fagnar þó sölvunum þangað til hún sér þau. Þá segir hún: „Og því fórstu að flytja fjandans þang upp á Skeið?“