Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðburðasögur/Barnafell
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862)
Barnafell
Barnafell
Barnafell er kallað í Bárðardal; það fell er ekki langt frá hinum mikla og fagra Goðafossi í Skjálfandafljóti. Undir fellinu er annar foss sem dregur nafn af því og heitir Barnafellsfoss. Einu sinni voru börn að leika sér með tunnu uppi á fellinu, fóru inn í hana og komu á hana veltu af vangá. En tunnan valt ofan eftir hlíðinni sem er bæði grasi vaxin og snarbrött, ofan í fossinn, og drukknuðu börnin þar. Af þessu dregur fossinn síðan nafn og fellið einnig, en áður hét það Miðfell.