Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðburðasögur/Barnafoss (2)
Barnafoss
Mikil trú er á því að álögurnar haldist á fossinum og engi hafi þar lífs yfir komizt. Það er sagt að einn maður hafi ætlað að rýma út trú þessari. Það var vinnumaður frá Gilsbakka. Hann var á ferð fyrir sunnan Hvítá og gisti um nótt í Hraunsási hjá Jakobi Snorrasyni er síðar bjó á Húsafelli og andaðist þar. Um morguninn ætlaði maðurinn heim. Þetta var um haust og var áin íslögð á fossinum. Hann kvaðst ætla að ganga fossinn, en Jakob latti hann þessa. Maðurinn vildi engu að síður fara og bauðst þá Jakob til að fylgja honum. Það þá hann. Þeir gengu síðan báðir norður að ánni og sáu að ísspöng var á iðunni og ekki ótraustleg. Jakob brá reipi um manninn miðjan og um sig. Með því ætlaði hann að reyna að hjálpa honum ef honum hlekktist á; því Jakob var karlmenni mikið að burðum. Nú gekk maðurinn út á ísinn og komst yfir að landinu hinumegin. Þá þóktist hann viss um að hann mundi komast af og kallaði til Jakobs og kvaðst ætla að reyna hvað ísinn væri þykkur. Jakob bannaði honum strengilega að forvitnast um það og kvað hann það engu skipta. Maðurinn fór ei að því og hjó niður stafnum sínum, en í sama bili brast ísinn frá löndunum og maðurinn fór niður í iðuna. Reipið hjóst sundur á skörinni og Jakob stóð eftir á bakkanum. Það má nærri geta hvert honum hefir ei orðið hverft við sjón þessa. Hann sá manninn berast niður eftir iðunni, en ekki unnt að hjálpa, því áin er þar geysiströng og djúp. Jakob kallaði til menn og gátu þeir náð manninum löngu seinna. Svona fór nú þessi tilraun.
Ekki er það að undra þó ísinn brysti þá er maðurinn hjó í hann, því svo stendur á að þegar ána leggur er hún oft mikil og verður ísinn af snjókrapi; en þegar áin minnkar, verður töluvert haf undir ísnum ofan að vatninu; er þá auðráðið að ísinn muni fljótt bresta ef hann verður fyrir höggum eða miklum þunga. Þetta er og orsök til þess að Hvítá ryður sig oft í einu vetfangi. Hafa menn haft þá trú, að það vissi á hláku og gott veður ef hún ryður sig í frosti á vetrum, en þar á móti á hörkur og frost ef hún þolir nokkra hláku. Hvottveggja hefir við borið og er gaman að sjá til hennar þegar hún í bitru frosti flettir ísnum af sér með braki og brestum. Þetta er ekki undarlegt, þegar menn gæta að því að haf er undir ísnum ofan að vatninu, svo þegar þíða kemur í ísinn þolir hann ekki þunga sinn þó hann þoli hann meðan frostið er í honum.
Enn er það eitt til sannindamerkis um það að menn hafi til skamms tíma lagt mikinn trúnað á álögin á Barnafossi að þegar Hjörtur prestur Jónsson var nýkominn að Gilsbakka[1] fór hann einhverju sinni ofan að fjárhúsum sínum. Þaðan er skammt að fossinum yfir hraunið. Var þá gott veður og ís á fossinum. Prestur vildi skoða fossinn því hann hafði ekki séð hann, en heyrt margt um hann sagt. Hann gekk því frá sauðahúsunum niður að ánni og var ráðskona hans með honum. Hann sá nú að ís var á fossinum og skammt milli landa svo ei þyrfti að stíga nema öðrum fæti á ísinn þó maður hlypi yfir. Hann var manna léttastur og djarfastur. Hann sagðist þá ætla að hlaupa yfir til reynslu, en ráðskona hans varð sem æðisgengin þegar hún heyrði það. Kvað hún slíkt mikinn óþarfa og lífið dýrara en svo að vert væri að hætta því þegar ekkert lægi við. Hún hélt í prestinn meðan hún talaði þetta; og margt fleira talaði hún. Snéri þá prestur frá ætlan þessari og féllst á það að ei væri vert að kæra sig um slíka hluti.
- ↑ Hjörtur Jónsson (1776-1843) varð prestur á Gilsbakka 1807 og var þar til dauðadags.