Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðburðasögur/Björn á Burstarfelli og veturvistarmaðurinn

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Björn á Burstarfelli og veturvistarmaðurinn

Þegar Björn sýslumaður Pétursson var á Burstarfelli var það eitt haust að til hans kom ókenndur maður (ei er getið um nafn hans) og beiddist veturvistar sem hann og fékk. Var maður þessi fálátur mjög og afskiptalítill um flest um veturinn. Björn var gleðimaður og hraustmenni mikið og hafði gaman af glímum og aflraunum. Á sumardaginn fyrsta skorar hann á pilta sína að þeir skuli reyna fangbrögð og fara í gímu og fá hinn ókunna mann í leikinn. Þetta verður; þeir fara í glímuna og fara þeir fremur halloka fyrir veturvistarmanni. En með því sýslumaður var glímumaður mikill þá býður hann aðkomumanni að koma og reyna fang við sig. Hinn tekur því, þó seinlega; verður það samt að þeir gangast að og verður þeirra aðgangur bæði harður og langur og má ekki lengi sjá hvor hærra hlut muni bera, og sjá menn það í öllu að aðkomumaður vill hlífast við að fella sýslumann því hann sér það að sýslumanni muni þykja. Verður það seinast útfallið að aðkomumaður féll á annað knéð og segir um leið: „Staðið gat ég, sýslumaður.“ Að því búnu kveður hann sýslumann og þakkar honum fyrir sig og biður hann að láta fylgja sér úr garði. Sýslumaður lætur vinnumann sinn ganga með honum. Ganga þeir þá kippkorn þar inn í dalinn unz þeir koma þar á einn stórgrýttan mel; þar gengur aðkomumaður að stórum steini, býr til hlóðir og þrífur til bjargsins og setur á hlóðirnar, biður vinnumann að heilsa sýslumanni og segja honum að ketillinn sé settur upp, hann biðji hann gera svo vel að taka hann ofan, og með það kveður hann vinnumann. Vinnumaður segir sýslumanni. Sýslumaður lætur söðla hest og ríður inn eftir og lízt ekki að eiga við steininn og lætur sér um munn fara að hann sé ekki sitt meðfæri. Steinninn er til enn í dag og mundu valla sex til átta menn hnika honum.