Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðburðasögur/Björn skafinn

Björn er maður nefndur Jónsson, kallaður skafinn. Foreldrar hans fluttust að vestan til Austfjarða seint á dögum Stefáns biskups. Það var um vortíma. En á Reykjaheiði varð móðir hans léttari og fæddi hann. En fyrir því að ekki var vatn að fá var barnið skafið með knífi; var hann því kallaður síðan Björn skafinn. Hann ólst upp í Austfjörðum og var afburðamaður að afli og vexti.

Þá hann var fullþroska gjörðist han forráðamaður húsfrú Margrétar Þorvarðsdóttur á Eiðum er kölluð var hin ríka. Hún átti dóttur eina barna er Margrét hét. Maður hennar er sagt að heitið hafi Bjarni sem fyrir ráðríki hennar hljóp frá henni og komst í duggu er lá á Suðurfjörðum. En mörgum árum þar á eftir kom hann inn á duggu á Loðmundarfjörð og kastaði fram stöku þessari:

„Heilsi þið fyrir mig húsfreyjunni heim til Eiða;
mörgum gjörir hún manni greiða;
margt má gott af frúnni leiða.

Þess er getið eitthvört sinn að Björn skafinn lá að Eiðabjargi í Borgarfirði og var formaður þar fyrir skipi Margrétar húsfreyju. En seint um sumarið reið hún ofan eftir að líta eftir aflabrögðum og þótti lítið hafa fiskazt og kvað sljóvlega sóttan sjóinn. Hann kvað fisk svo lítinn að aldrei fengist utan einn í áróðri. „Séu tuttugu áróðrarnir,“ sagði hún, „fást tuttugu fiskar.“ Um morguninn eftir viðtal þeirra var gott veður; var því Björn árla uppi til sjóróðurs. Hún sagðist ætla með sér til skemmtunar. Hann kvað sér það vel líka. En þegar leið á daginn gekk í útnyrðing snarpan. Óvön við vos og kulda bað hún Björn róa í land. „Nei,“ sagði hann. „í tuttugu áróðrum fást tuttugu fiskar, bezt er að færa við þolið.“ Alltaf varð veðrið meira og meira og farinn að rjúka sjór, en hann að róa á. Þessu hélt hann fram þar til Margrét var nær dauða en lífi. Hún bað hann þá hvað sem kosta ætti að flytja sig í land. Hann kvað ekki fullsetið enn, en þó skyldi hann gjöra það ef hún með eiði lofaði að gefa sér Margrétu dóttur sína, hvað hún gjörði. Fékk Björn hennar eftir þetta.

Margrét húsfrú var auðug mjög bæði að föstu og lausu. Hún átti Húsavík og Njarðvík og bauð dóttur sinni hvörja jörðina sem hún vildi. Hún kvaðst heldur kjósa Njarðvík því þar kæmi fleiri. Reisti Björn þar svo bú og bjó til elli. Þau áttu marga sonu sem allir voru afarmenni að afli og atgjörvi, sem lengi hélzt við í ætt þeirri. Gengu miklar sögur frá sonum Bjarnar skafinn, einkum Þorvarði sem bjó eftir föður sinn í Njarðvík og Jóni er drap óvættinn Nadda. Hann var með Erlendi sýslumanni Bjarnasyni þá hann tók dugguna ensku.

Jón hét annar sonur Bjarnar skafinn, kallaður Áttærings-Jón. Hann var svo afburðamikill að hann hélt einn til áttæringsskipi, en fórst seinast á vog þeim fyrir utan Höfn í Borgarfirði sem heitir síðan Áttæringsvogur.

Steingrímur var einn sonarsonur hans; sagði svo frá afli hans að þegar hann hefði komið af duggunum á sumarinn, þá hefði hann leikið sér að því að grípa handfylli sína upp úr harðvellinu; en hann kvaðst aldrei hafa komið í harðvellið nema því fremsta af fingrunum, svona sagði hann mönnum færi aftur af aflinu. Hann rotaði einu sinni rostung með járnkall.