Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðburðasögur/Blákápuþúfa

Til forna átti kona ein sem hét Blákápa allan Flókadal í Fljótum framanverðan. Hún var ráðrík kona og vildi ekki mæta ágangi þeirra er byggðu neðar í dalnum. Lét hún því hlaða garð einn mikinn um þveran dalinn kletta á milli. Síðan lét hún heygja sig í stórum hól sem er við annan endann á garðinum og lét hún grafa sig þar með öllum dýrgripum sínum. Svo mælti hún svo um að enginn skyldi komast í hólinn nema sá sem gæti gengið aftur á bak eftir garðinum endilöngum án þess að stanza eða líta við. Hóll þessi er kallaður Blákápuþúfa og hefir enginn komizt í hana til þessa. En einu sinni ætluðu menn að fara til og grafa í hana, en þá sýndist þeim allur dalurinn standa í björtu báli svo þeir hættu hið skjótasta við það. Enn í dag sést þúfan glögglega, en aðeins sést móta fyrir garðinum.