Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðburðasögur/Brúar-Jón

Fyrir mörgum árum síðan bjó bóndi á Brú á Jökuldal sem Guttormur hét. Hann átti þann son sem Jón hét. Var hann snemma efnilegur svo fáir þóttu hans líkar í því byggðarlagi. Það var siður Brúarbænda fornu að hafa sauðfé sitt inn í hvömmum nokkrum við Jökulsá (innan við Brúarskóga) á vetrum í helli þeim sem þar er og kallaður er Magnahellir. Tekur hann nafn af Magna, bónda sem fyrrum bjó á Brú og fann fyrstur upp á að hafa þar sauðfé á vetrum um tíma. Guttormur bóndi hafði og þenna sið, að hafa þar fé sitt, og lét Jón son sinn vera smala, því hann þótti maður ófælinn, en reimt þótti þar jafnan í hellinum. Einn dag er Jón að sauðum, en að kvöldi rekur hann þá í helli sinn, og sem hann kemur að rúmi sínu sér hann þar öllu umrótað. Hann verður fár við þetta og hefur nokkur orð um við sjálfan sig; leggst síðan til svefns. En um nóttina dreymir hann konu koma til sín svo mælandi: „Mátulegt væri ég skyrpti ofan í þig, Jón, fyrir það þú atyrtir barnakindurnar mínar þó þau rifi upp í rúminu þínu í gær.“ Síðan hvarf konan, en Jón fékkst ei um eftir það þó rifið væri upp í rúmi hans; en gildrur þóttu honum gjörðar til að hann skyldi burtu fara úr hellinum.

Eina nótt vaknar hann við að allsber maður og ískaldur liggur fyrir framan hann. Jóni varð ei hverft við og mælti: „Breiddu ofan á þig, maður!“ en það hvarf þá jafnskjótt burtu.

Eitt sinn þá Jón var í Magnahelli er mælt að tröllskessa hafi ásókt hann og ert hann á margan hátt. Eitt kvöld er hann var kominn í rúm sitt þá rak hún annan fótinn inn um glugginn og mælti: „Viltú, Jón, sjá þennan fót!“ Hann mælti: „Farðu burtu, skassið þitt!“ Hljóp hann þá út úr hellinum og bauð henni til glímu, en hún flúði. Þá leiddust þó Jóni þessar ertingar úr skessunni; var þá liðið fram á útmánuði. Hugsar hann sér að fara heim áður margir dagar liðu. Þenna dag var vont veður, en um nóttina þá hann er sofnaður vaknar hann við mikið hark og gengið er inn í hellirinn. Sýnist honum það alhvítur tröllkall. Jón hleypur upp og tekur sveðju er hann hefur hjá sér og atlar að reka í tröllið. Gefur það þá hljóð af sér. Er þetta þá Guttormur faðir hans og spyr hvort Jón sé hér lifandi. Hann játar því og spyr föður sinn því hann sé þar kominn. Kall kvað sig hafa dreymt svo illa til hans og kvaðst hafa hugsað hann dauðan. Segir þá Jón honum að sig hafi hér ekkert sakað. Fara þeir síðan heim daginn eftir. Var þá kominn þeyr og gott veður. Er Jón fáa daga heima áður hann býst að fara aftur inn eftir. Biður hann systur sína að fara með og gjörir hún það. En áður hann fer þá smíðar hann sér lagvopn mikið. Halda þau síðan bæði systkinin inn í Magnahellir. Einn dag mælti Jón við systir sína að hann vili ei lengur eiga skessuna yfir höfði sér. „Atla ég,“ segir hann, „þú skulir geyma fjárins meðan ég er burtu og verði ég ei kominn á þriðja degi þá máttu fara heim og segja lát mitt og með hverjum atburðum það hafi skeð.“ Síðan heldur hann af stað og stefnir í norðurátt frá hellinum. Segir ekkert af ferðum hans fyrr en seint á öðrum degi að hann kom heim aftur. Varð systir hans honum mjög fegin og spurði að leikslokum. En Jón var þá mjög dasaður, en mælti að þau mundu mega sofa þessa nótt í næði fyrir skessunni. Sá systir hans að brotið var vopn hans. Vita menn ei gjörar um sameign þeirra en það að um vorið fundu menn brotið af vopni hans við innsta mógilið á Vesturárdalnum í Brúarafrétti.