Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðburðasögur/Drottinn blessi söfnuðinn nema hann Þorvald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
„Drottinn blessi söfnuðinn nema hann Þorvald“

Á dögum Páls prests í Grímsey[1] var þar piltungur einn sem Þorvaldur hét. Þókti presti hann ódæll mjög og vandlætti um, en Þorvaldur skipaðist lítt við áminningar prests og hélt að öllu háttum sínum. Þetta gramdist mjög prestinum sem allan hug lagði á það að fá Þorvald beygðan að nokkru. Leitaði hann ýmsra bragða til þess, en engin hrifu fyr en prestur einu sinni, þá er hann embættaði, blessaði á stólnum yfir söfnuðinn og mælti þannig um: „Drottinn blessi þig, þú guðs söfnuður, allan nema hann Þorvald,“ og við ítrekun blessunarorðanna undanskildi Þorvald. Þorvaldur var í kirkjunni og hlýddi á, og fékk þetta svo á hann að hann gekk til prestsins eftir messuna og friðmæltist og hét bót og betrun. Hann betraðist líka svo að prestur vítti hann ekki lengur og lét hann njóta blessunarinnar eins og aðra Grímseyinga.

  1. Páll Tómasson (1797-1881) var prestur í Grímsey 1828-35.