Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðburðasögur/Dvergasteinn
Dvergasteinn
Prestssetrið í Seyðisfirði stóð í fyrndinni austanfjarðar. Hvað það þá hét getur ekki um. Í grennd við það var stór steinn er menn almennt héldu og trúðu að dvergar byggju í og sem því var kallaður Dvergasteinn.
Þegar fram liðu tímar þótti staðurinn og kirkjan einhvörra orsaka vegna óhaganlega megin við fjörðinn. Steinninn sem nærri má geta varð eftir. En þegar kirkjubyggingunni nýju var að mestu lokið verður mönnum starsýnt á að sjá hús koma siglandi handan yfir fjörðinn og stefna beint þangað sem kirkjan stóð. Heldur það áfram unz það kennir grunns og nemur þá staðar í fjörunni. Menn verða þá vísari að Dvergasteinn var þar kominn með íbúum sínum í – dvergunum. Kunnu þeir ekki við sig eftir að kirkjan hafði fjarlægzt og drógu sig því á eftir henni, en síðan – til minningar ævarandi um guðrækni dverganna – var prestssetrið kallað Dvergasteinn.