Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðburðasögur/Ellefu krof á einni rá

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
„Ellefu krof á einni rá“

Einu sinni fóru þjófar tveir í samlögum að stela. Verður það ráð þeirra að þeir fara heim að einum ríkisbæ, koma þar á vökunni, og biður annar þeirra að lofa sér að vera og fær það. Er hann spurður að heiti og segir hann sem honum sýnist og læzt vera langferðamaður. Nú er honum gefið að éta og svo er nefnt við hann eitthvað að gera, en hann sýnist fátt kunna nema að raula rímnaerindi. Fer hann nú að kveða og kveður svo lystilega að öllum þókti yndi að heyra. Meðal annars kveður hann þetta erindi:

Ellefu krof á einni rá,
efni þessu hvarf ég frá;
taktu hann Bleik, en bittu hann Brún
og bíddu mín fyrir utan tún.

Enginn veitti þessu eftirtekt nema hinn þjófurinn sem úti lá við gluggann. Um kvöldið er háttað, en um morguninn er gesturinn horfinn og ellefu krof úr eldhúsinu. Þóttust menn nú sjá hvers kyns þjófur þetta var, en aldrei hafðist neitt framar upp á honum.