Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðburðasögur/Erfinginn

Karl einn var sá er ekki gat eignazt barn með konu sinni og lagði fáþykkju á hana sökum þess. Hún segir það grannkonu sinni og semja þær ráð sín. Litlu síðar lætur konan mann sinn vita að nú sé hún þó loksins orðin barnshafandi og verði um meðgöngutímann að skilja við hann rúmið. Karl verður ofurfeginn og skiptir skjótt skaplyndi og er hinn blíðasti við konuna og því betri sem hann sér hún gildnar meir. Kemur þar um síðir að hún tekur léttasóttina og biður hann að sækja yfirsetukonuna þá sömu er hún áður talaði við. Hann gjörir það og flýtir sér. Konan kemur og hin leggst og hljóðar ákaflega svo karli blöskrar og óttast mjög um líf hennar, en nærkonan hughreysti hann sem hún mátti. Um síðar varð konan léttari; var þá nótt komin, en tunglslýsi var á; ljós var ei kveikt. Konan hlynnti barninu sem þörf gjörðist og var það hljóðalaust. Karlinn vildi sjá barnið og við bón hans fær konan honum reifastrangann og leyfir honum að bera barnið fram í bæjardyrnar og skoða það við tunglsljósið, en ekki megi hann fara með það út á hlaðið meðan ekki sé búið að skíra það. Hún segir honum vandlega fyrir hvernig hann haldi á reifastranganum og hvernig hann losi skýluna frá andliti barnsins. Fór karl nú að öllu sem hún mælti fyrir og er hann kemur að dyrastafnum losar hann skýluna. Hann var sjóndapur, getur að heldur ekki séð framan í barnið og víkur sér út fyrir bæjarstafinn og gætir að vandlega; þykist hann þá sjá einhver deili fyrir augum þess og nefi og segir: „Mitt er auga og mitt er nef,“ en barnið brýzt þá sterklega úr höndum hans svo hann missir það út úr reifunum er voru mjög laust vafðir, en um leið meiðir það hann í augað svo hann kenndi mjög sárt. Snýr hann svo inn með tómu reifana og æpir mjög af tilkenningu í auganu og af missir barnsins og segir: „Blessaður unginn rak fingurinn upp í augað á mér og fór svo upp til himna.“ Það má ætla að konunum brugðið hafi við þenna útburð og hverjar skriftir karlsauðurinn fengið hafi fyrir það að hann bar barnið út fyrir bæjarstafinn. Gengur nú ekki á öðru langa stund en ópi og gráti, einkum fyrir karlinum er eigi þoldi við í auganu. Að síðustu hugguðust þau öll við það að barnið mundi farið hafa í himnaríki þó það yrði með slysum þessum. Karlinn gat síðan engum kennt nema sjálfum sér að hann kom ekki upp erfingjanum og til að bæta brot sitt við konuna var hann henni í öllu hinn ástúðlegasti. Barnið sem hann missti var hrafn sem konan reifaði og nefið á hrafninum fingurinn sem barnið rak í augað á karlinum.