Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðburðasögur/Fuglarnir á Heljárdalsvatni
Fuglarnir á Heljárdalsvatni
Nágrannar tveir, Gautur og Þorgautur, bjuggu í fyrndinni á bæjum þeim sem við þá eru kenndir í Stíflu í Fljótum. Var í þeim fremur nágrennisrígur. – Eitt sinn hittust þeir uppá dal þeim sem er uppi í fjallinu milli bæjanna og heitir Heljárdalur; var Þorgautur þar að veiða silung. Þóktist hann eiga vatnið sem er á dalnum, en Gautur kom með net og þóktist líka eiga veiðirétt í vatninu. Hér út af fóru þeir í ágreining og áflog, sem lyktuðu þar með að þeir báðir fóru í vatnið og urðu að fuglum tveim.
Fuglar þessir eru enn á vatninu og segjast nokkrir hafa séð þá. Þeir eru sagðir grámórauðir á lit, álíka stórir og hákallaskúmar, hausdigrir og loðnir um hausinn, og til að sjá eins og þeir hafi kampa.
Silungur allur hvarf úr vatninu við viðureign þeirra nágranna og hefur aldrei síðan í því sézt nokkur lifandi branda. Þess má geta að enn er óvissa nokkur um landamerki milli jarðanna.