Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðburðasögur/Gestaraun

Prestur einn bjó eitt sinn í mörg ár að Hvammi í Norðurárdal er Jón hét. Hann var hraustmenni mikið. Hafði hann blöndukönnu eina mikla með tveimur handarhöldum, og var það vani hans þegar vermenn komu þangað á vetrum og báðu að gefa sér að drekka að bera þeim könnuna fulla drykkjar og halda annari hendi í annað handarhald, en rétti aðkomumönnum hitt. En enginn gat tekið öðruvísi við en svo að hann skaut annari hendi undir botninn. Fékk kannan nafn af þessu og var kölluð Gestaraun. Eitt sinn kom þar ungur maður norðan úr Skagafirði að Hvammi með öðrum vermönnum; tók hann við könnunni með annari hendi, lyfti lokinu frá og stóð og drakk svo með annari hendi og rétti presti síðan aftur. Engir hinna léku þetta eftir. Prestur spurði hinn unga mann hve gamall hann væri, en hann kvaðst vera átján ára. Prestur horfði lengi eftir honum og sagði síðan með döpru bragði: „Þarna fara hraust bein í sjóinn.“ Gekkst það eftir, því pilturinn drukknaði syðra á vertíðinni.